Háskólinn á Akureyri fullsetinn

Séð yfir Háskólann á Akureyri.
Séð yfir Háskólann á Akureyri.

Í þessari viku hefja 1.022 nýnemar nám við Háskólann á Akureyri sem er 114 nemendum fleira en árið áður. Langflestir, eða 322, hefja nám í félagsvísindadeild en til hennar telst m.a. nám í fjölmiðlafræði, félagsvísindum, sálfræði og lögreglufræði. Þetta er í annað skipti sem Háskólinn á Akureyri tekur við nemendum í lögreglufræði eftir að mennta- og menningarmálaráðuneytið fól HA að hýsa námið í fyrra. Samtals hefja 157 nám í lögreglufræði á haustmisseri. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Háskólanum á Akureyri.

„Það er afar ánægjulegt að sjá að gæði og orðspor Háskólans á Akureyri eru að skila okkur fleiri nemendum. Þetta er þriðja árið í röð sem við fáum metaðsókn og því ljóst að námið hjá okkur er eftirsóknarvert. Það veldur mér þó áhyggjum að við munum ekki geta tekið við sama fjölda nýnema á næstu árum. Eins og staðan er í dag er Háskólinn á Akureyri fullsetinn og ljóst að grípa þarf til aðgangstakmarkana strax á næsta ári,“ er haft eftir Eyjólfi Guðmundssyni, rektor Háskólans á Akureyri.

Engar aðgangstakmarkanir eru á fyrsta árinu en aðeins 55 nemar komast áfram í hjúkrunarfræði af þeim 156 sem hefja námið á þessu haustmisseri. Því er eins háttað með lögreglufræði: Af þeim 157 sem hefja námið eru aðeins 40 sem komast að í tveggja ára starfsnám fyrir lögreglumenn en einnig er hægt að halda áfram og ljúka þriggja ára bakkalárnámi í greininni.

Um helmingi fleiri konur

Kynjahlutfall nýnema er svipað og árið áður og nú hefja 36% karlar nám á meðan hlutur kvenna er 64%. „Þegar við tókum inn íþróttakennaraáherslulínu í kennarafræði og nú síðast lögreglufræði sáum við breytingar í rétta átt en betur má ef duga skal. Ástæður þess að mun færri karlmenn stunda háskólanám eru því greinilega margslungnar og þurfum við samstarf við stjórnvöld, og innan háskólasamfélagsins, til að skilja betur hvernig er unnt að bregðast við. Það vekur sérstaka athygli að á meðan konur á landsbyggðunum eru með svipað menntunarstig og stöllur þeirra á höfuðborgarsvæðinu þá er því ekki eins farið með karlana,“ segir Eyjólfur.

Áætlað er að tæplega 2100 nemendur stundi nám við HA þetta skólaár. Í Háskólanum á Akureyri er boðið upp á 13 námsleiðir í grunnnámi, þar af eru 7 námsleiðir sem enginn annar háskóli á Íslandi býður upp á. „Við erum að mennta fólk til starfa í öllum heiminum en að sama skapi með samkeppni úr öllum heiminum. Háskólinn á Akureyri getur státað af einstöku námi í einstöku umhverfi með áherslu á persónuleg samskipti, það eru kostir sem ungt fólk nú til dags metur mikils og því þökkum við aukinn fjölda nýnema,“ segir Eyjólfur Guðmundsson.

 

 

Nýjast