Háskólahátíð haldin í blíðskaparveðri

Kandídatar ásamt rektor, sviðsforsetum og deildarstjórum.  Myndir aðsendar
Kandídatar ásamt rektor, sviðsforsetum og deildarstjórum. Myndir aðsendar

Háskólahátíð — brautskráning kandídata frá Háskólanum á Akureyri fór fram í þremur athöfnum í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri 14. og 15. júní. Samtals brautskráðust tæplega 550 kandídatar í grunn- og framhaldsnámi af tveimur fræðasviðum.

Aldrei hætta að læra

Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri jarðvísinda á Veðurstofunni, var heiðursgestur Háskólahátíðar 2024 og ávarpaði kandídata á laugardeginum. Kristín lagði áherslu á að við erum ólík og samfélagið þurfi fjölbreytni og að háskólastúdentar leggi sitt af mörkum enda þjálfaðir í greiningarhæfileikum. Hún ítrekaði einnig að mistök séu óumflýjanlegur hluti af lífinu sem gott er að læra af og að við eigum aldrei að hætta að læra. Kristín sagði líka frá sinni upplifun af námi og hvernig það hafi haft mikil áhrif á hana þegar leiðbeinandinn sagði: „Veistu það Kristín, að ritgerðin er ekki aðalútkoma þessa doktorsnáms. Ritgerðin þín er frábær en það ert þú sem ert búin að læra að hugsa, skrifa og tala eins og vísindakona og það ert þú sjálf sem ert afrakstur þessa náms!“ Þessi orð eru gott leiðarljós til allra sem ákveða að nema við háskóla; vegferðin er einnig afrakstur og mótar okkur sem manneskjur.

Gervigreindin og tímamótin

Tímamót voru þema í ræðu rektors, Eyjólfs Guðmundssonar. Tímamótin sem kandídatar standa á að loknu námi, tímamót háskólans sem stefnir hraðbyri í að fara yfir 3000 stúdenta markið og tímamót í eigin lífi því Eyjólfur lætur af störfum sem rektor í lok mánaðar eftir tíu ára starf. Hann lýsti þessu vel í einni setningu: „Já – heimurinn allur er á stærstu tímamótum mannkynssögunnar því að með tilkomu gervigreindarinnar eru allar forsendur samfélagsins gjörbreyttar.“

Á hátíðinni fluttu kandídatar ávörp, einn í hverri athöfn og augljóst að framtíðin er í öruggum höndum. Þá voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur bæði í grunn- og framhaldsnámi ásamt grænum ritgerðarverðlaunum sem í ár fóru til fimm kandídata sem hlutu þau fyrir að taka sjálfbærni sem viðfangsefni inn í lokaritgerðir sínar. Einnig veittu Góðvinir viðurkenningar til kandídata sem hafa sýnt góðan námsárangur og óeigingjarnt starf í þágu háskólans.

Meðfylgjandi myndir  eru frá hátíðarhöldunum.

 

 

Nýjast