Hannaði lykt af Íslandi

Anna Örvarsson, eigandi Fjord.
Anna Örvarsson, eigandi Fjord.

Anna Örvarsson ólst upp í úthverfi Washington DC en settist að á Akureyri fyrir 6 árum með manninum sínum, tónskáldinu Atla Örvarssyni. Anna er bæði mannfræðingur og hönnuður að mennt og hefur hún starfað á sviði innanhúshönnunar í Los Angeles síðustu 15 ár.

Anna segist vera afskaplega ánægð á Akureyri, þar sé hún jarðtengd. „Ég hef bæði búið í borg og í sveit og mér finnst sveitin betri, því einangraðra því betra. Ég er mikið náttúrubarn og við vildum að börnin okkar myndu alast upp í betra umhverfi. Akureyri var kjörinn staður, enda er Atli héðan.“ 

Lífsstílsverslunin Fjord

Árið 2019 opnaði Anna lífsstíls- og konseptverslunina Fjord í hjarta Akureyrar, en í henni má finna ýmsar vandaðar heimilis- og lífsstílsvörur innblásnar af íslenskri náttúru. 

Í Fjord má finna ýmsan varning sem Anna hannar sjálf, ásamt vörumerkjum eins og t.d. Farmers Market, en Anna segir að það hafi myndast ákveðinn spenningur hjá Akureyringum fyrir því. „Ég hugsa að Farmers Market merkið verði vinsælt hjá okkur um jólin, en það er komið aftur til Akureyrar eftir 5 ára pásu.“

Kerti

Anna býr til kerti í mörgum fallegum litum.

Eins og í allri verslun er jólatörnin mikilvægur tími og það er óhætt að segja að mikið úrval af jólagjöfum sé að finna hjá Önnu. „Kertin okkar, sem unnin eru úr náttúrulega býflugnavaxi, eru rosalega vinsæl og þau eru í svo fallegum litum. Við erum einnig með lítil, handgerð keramikblóm og fólk elskar að nota Móa, heimilisilminn til að spreyja á þau. Ég held að þetta væru frábærar jólagjafir.“

Nýr heimilisilmur þróaður í Frakklandi

Anna segir að hugmyndin á bakvið verslunina sé „The slow living movement“ (sem einhver þýddi á íslensku sem: Njóta en ekki þjóta – innskot blaðamanns) en í versluninni eru vörurnar gerðar á eins náttúrulegan hátt og hægt er, ásamt því að forðast að nota óendurnýjanlegar eða skaðlegar auðlindir.

Anna fær útrás fyrir sköpunargáfuna en reynir að stuðla ekki að neysluhyggju og hefur ekki áhuga á fjöldaframleiðslu. „Ég hef alltaf haft mikla sköpunargáfu ásamt því að vera, eins og ég sagði áður, mikið náttúrubarn. Mannúðarmál skipta mig líka miklu máli. Ég sinni góðgerðarmálum fúslega og hef alltaf reynt að leggja mitt af mörkum til heimilislausra.“

Ilmur

Anna hannaði heimilisilminn MÓA í Frakklandiog telur hann endurspegla íslenska náttúru.

Hún leggur mikinn metnað í verslunina og er til að mynda nýlega búin að vera í Frakklandi að þróa nýjan heimilisilm. „Frakkar eru þekktir fyrir ilmvatnsgerð og við ákváðum að við þyrftum að fara á aðal ilmvatnsstaðinn til að búa til þennan ilm.“ Úr varð til ilmurinn Mói, en hann einkennist af mosa og mjúkum viðartónum, eða einfaldlega íslenskri náttúru. 

Anna segir að það taki tíma og sé dýrt að hanna heildstæða línu, en hún sé að vinna í því. „Í dag panta ég vörur frá hönnuðum og fyrirtækjum í sambland við mína hönnun,” segir hún og að þannig takist henni að skapa heildstætt útlit fyrir verslunina á meðan hún þróar hægt og rólega stærri línu. 

VET

Nýjast