Hafrún Olgeirsdóttir leiðir D-lista í Norðurþingi

Hafrún Olgeirsdóttir og Helena Eydís Ingólfsdóttir
Hafrún Olgeirsdóttir og Helena Eydís Ingólfsdóttir

Uppstillingarnefnd Sjálfstæðisflokksins í Norðurþingi bar upp til samþykktar framboðslista flokksins vegna sveitarstjórnarkosninganna 2022 á fjölmennum félagsfundi á Húsavík í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var á fjölmiðla að loknum fundi. Það er Hafrún Olgeirsdóttir sem mun leiða listann en hún hefur verið fulltrú E-listans á yfirstandandi kjörtímabili. Helena Eydís Ingólfsdóttir er í 2. sæti listans og mun því áfram bjóða fram krafta sína til starfa í sveitarstjórn Norðurþings.

„Það er mikið gleðiefni að í efstu sætin raðist öflugt Sjálfstæðisfólk sem hefur góða reynslu af sveitarstjórnarmálum og mun koma til með að berjast áfram ötullega fyrir eflingu samfélagsins í Norðurþingi. Það er sömuleiðis ánægjulegt að á framboðslistann raðast bæði núverandi sveitarstjórnarfólk Sjálfstæðisflokksins í Norðurþingi sem og sveitarstjórnarfólk af E-lista – lista samfélagsins sem fyrir síðustu kosningar bauð fram krafta sína og hlaut einn kjörinn fulltrúa. Samstarf einstaklinga af báðum listum hefur verið farsælt á yfirstandandi kjörtímabili og því jákvætt og eðlilegt skref að Sjálfstæðisfólk sameinist á einum öflugum lista fyrir kosningarnar í maí,“ segir í tilkynningunni.

 „Fyrst og fremst er ég þakklát fyrir það að mér sé treyst til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Norðurþingi og er ég full tilhlökkunar að takast á við þær krefjandi áskoranir sem fylgja því hlutverki. Fulltrúar af D og E-lista hafa átt í góðu samstarfi á kjörtímabilinu sem er að líða og ég er mjög ánægð með að við sameinumst nú á jafn öflugum lista og hér hefur verið skipaður fyrir komandi kosningar,“  segir Hafrún

„Ég er afar þakklát fyrir að njóta áfram trausts Sjálfstæðisfólks í Norðurþingi til að starfa í sveitarstjórn Norðurþings. Það er mikið tilhlökkunarefni að fá tækifæri til að starfa að þeim verkefnum sem bíða handan sveitarstjórnarkosninga í vor með jafn öflugum og reynslumiklum hópi og skipar lista Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnarkosningum,“  segir Helena Eydís.

Þá segir í tilkynningunni að listi Sjálfstæðisflokksins muni koma til með að vinna áfram að fjölbreyttum framfaramálum í sveitarfélaginu á grunni góðs árangurs sem Sjálfstæðisfólk hefur byggt undanfarin ár. „Við erum stolt og einstaklega ánægð með sterkan og glæsilegan framboðslista sem við höfum trú á að muni hljóta brautargengi til áframhaldandi góðra verka í Norðurþingi að loknum sveitarstjórnarkosningum þann 14. maí næstkomandi,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Norðurþingi 2022

1 Hafrún Olgeirsdóttir lögfræðingur Húsavík

2 Helena Eydís Ingólfsdóttir verkefnastjóri Húsavík

3 Kristinn Jóhann Lund húsasmiður Húsavík

4 Kristján Friðrik Sigurðsson fiskeldisfræðingur Húsavík

5 Birna Ásgeirsdóttir skrifstofustarfsmaður Húsavík

6 Arna Ýr Arnarsdóttir fjármála- og skrifstofustjóri Húsavík

7 Þorsteinn Snævar Benediktsson bruggmeistari Húsavík

8 Sigríður Þorvaldsdóttir héraðsfulltrúi Öxarfirði

9 Hilmar Kári Þráinsson bóndi Reykjahverfi

10 Sigurgeir Höskuldsson matvælafræðingur Húsavík

11 Kristín Þormar Pálsdóttir verkakona Raufarhöfn

12 Ívar Sigþórsson verkamaður Raufarhöfn

13 Ásta Hermannsdóttir næringarfræðingur Húsavík

14 Steinþór Friðriksson bóndi Melrakkasléttu

15 Karolína Kristín Gunnlaugsdóttir viðskiptafræðingur Húsavík

16 Bjarki Breiðfjörð teymisstjóri Húsavík

17 Jóhanna S. Kristjánsdóttir hjúkrunarfræðingur Húsavík

18 Reynir Jónasson fyrrverandi kaupmaður Húsavík

Nýjast