20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hættulegur förunautur.
Allt sem við veitum athygli vex og dafnar. Fyrir um ári síðan náði reiðin heljar tökum á hjörtum okkar vegna stríðsins fyrir botni Miðjarðarhafs. Ástandið þar versnar enn, dag frá degi og nærir reiðina í brjóstum okkar. Heimsbyggðin öll stendur á öndinni ráðalaus. Við erum öskureið og örvæntingarfull. Það eru heilbrigð og eðlileg viðbrögð. Verra væri ef okkur væri sama og ypptum bara öxlum. Reiðin er hins vegar afar hættulegur förunautur til lengdar.
Reiði hefur oftast hrundið af stað alvarlegustu stríðum heims, ásamt græðginni. Það var einmitt reiðin sem hratt af stað umræddu stríði, sem síðan leiddi svo af sér söngvakeppnistríðið hér heima. Reiðin vall í okkur og byrgði okkur alla sýn vegna þess að meðal þjóðanna þrjátíu var stríðandi þjóð. Vopnin sem við notuðum af afli í okkar stríði voru kjaftur, klær og níðhögg. Söngvakeppnin sem margir fylgjast með í barnslegri gleði varð skyndilega að heiftúðlegu bitbeini. Fordæmingar og ljót orð féllu í garð keppenda, þeirra sem unnu við keppnina og jafnvel í garð þeirra sem voguðu sér að horfa á keppnina. Fólk dró fyrir glugga og hélt því leyndu ef það fylgdist með keppninni af hræðslu við að fá yfir sig formælingar.
Fram til þessa dags hafa ekki síst krakkar haft gaman af keppninni og fjölskyldur haldið partý með poppi og snakki og skemmt sér yfir litríkum atriðum, karakterum og búningum. Sumum finnst keppnin lágmenningarleg peningasóun og fíflaleg og það er allt í lagi að finnast það. Það er líka allt í lagi að finnast hún skemmtileg og nota tækifæðið til að hittast og sprella. Margir óþekktir laga- og textahöfundar hafa fengið dýrmæt tækifæri sem og óþekktir flytjendur, ekki síst ungt fólk og margar perlur hafa orðið til. Þetta er keppni í tónlist. Keppni í lagagerð, textagerð, tækni- og sviðsatriðum.
Tónlist er heilög og hafin yfir hroðann sem stríðin valda. Tónlist sameinar og tónlist er samofin lífi okkar bæði á gleði og sorgar stundum. Tónlist leggur líkn með þraut og mörg frægustu lög og tónverk heims hafa verið samin í sorg og hörmungum, bæði klassísk- og dægurtónlist. Við ættum ekki að leyfa morðóðum að næra reiðina í brjóstum okkar og sundra vinum, vinnufélögum og fjölskyldum. Við ættum að velja gleðina. Því allt sem við veitum athygli vex og dafnar – líka reiðin.