Hængsmenn afhentu bíl og héldu Hængsmót
Lionsklúbburinn Hængur á Akureyri hélt um liðna helgi árlegt Hængsmót fyrir fatlaða í 41. Skipti. Mótið fór fram í Íþróttahöllinni og í ár var keppt í boccia en mótið var auk þess Íslandsmót í greininni.
Áður en mótið hófst afhentu Hængsfélagar Skammtímavistun fatlaðra á Akureyri sem er til húsa í Þórunnarstræti 99, gamla Húsmæðraskólanum nýjan bíl til afnota. Sá er af gerðinni Mercedes Benz eVito og er rafknúinn með hjólastólalyftu. Bifreiðin kostar rúmlega 15 milljónir króna.
Þessi nýi bíll leysir annan bíl af hólmi sem keyptur var árið 2006, en hann var líka gefin af Lionshreyfingunni á þeim tíma. Lionsmenn vona að bílinn nýtist þeim sem dvelja í Skammtímavistun vel og auðgi líf þeirra.
Hængsmótið fór vel fram að venju en keppendur voru hátt i 200 talsins. Veglegt lokahóf var að loknu móti þar sem boðið var upp á dýrindis kræsingar og skemmtiatriði.
Um 40 karlar eru í Lionsklúbbnum Hæng.