20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Gunnar J Straumland sendir frá sér nýja ljóðabók ,,Kurteisissonnettan og önnur kvæði“
Út er komin ljóðabókin ,,Kurteisissonnettan og önnur kvæði“ eftir Gunnar J. Straumland, kennara og myndlistarmann.
Þetta er önnur bók höfundar en árið 2019 kom ,,Höfuðstafur, háttbundin kvæði“ út á vegum Bókaútgáfunnar Sæmundar sem einnig gefur nýju bókina út.
Í bókinni, sem er 224 bls., skiptist lýrísk sýn, alvara, glens og hálfkæringur á undir afskaplega fjölbreyttum bragarháttum en öll kvæði bókarinnar eru háttbundin í formi. Þar má finna sonnettur, dróttkveður, limrur, sléttubönd og fjölda rímnahátta auk ljóða undir ótilgreindum bragarháttum sem allir lúta þó stuðlanna þrískiptu grein. Lesandinn rekst einnig á sjaldgæfari gerðir eins og kvæði undir gripluhætti, slitruhætti og afdráttarhætti.
Gunnar J. Straumland er Húsvíkingur af þingeyskum og breiðfirskum ættum. Hann er búsettur í Hvalfjarðarsveit þar sem hann og eiginkona hans, Anna Guðrún Torfadóttir grafíklistakona, hafa komið sér upp myndlistarvinnustofu og verkstæði.
Forsíðumynd bókarinnar er vatnslitamynd eftir Gunnar sem nefnist ,,Þeir bræður frá Síam“
Bókin hefst á eftirfarandi kvæði:
Arfur
Mér var kennt við móðurhné
að muna ef ég léti í té
aumum hjálp til handa
að geyma það sem gullin vé
í gleði og engum segja, né
miklast í mínum anda .