Guðmundur Baldvin og Sóley Björk hætta eftir kjörtímabilið

Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Sóley Björk Stefánsdóttir.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Sóley Björk Stefánsdóttir.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Akureyrar og formaður bæjarráðs, ætlar ekki að gefa kost á sér næsta kjörtímabil. Þá mun Sóley Björk Stefánsdóttir, oddviti Vg, heldur ekki gefa kost á sér næsta kjörtímabil. Sveitarstjórnarkosningar fara fram eftir um ár, eða vorið 2022. Guðmundur Baldvin er á sínu þriðja kjörtímabili en Sóley á sínu öðru.

„Ég held að engum sé hollt að vera of lengi í sama hlutverkinu,“ segir Guðmundur Baldvin um ástæðu þess hann ætlar að hætta. „Þegar ég hóf þátttöku í sveitarstjórnarmálum talaði ég um að 12 ár væri fínn tími og ljósi þess tel ég því rétt að standa upp í lok þessa kjörtímabils og hleypa öðrum að.“

Sóley Björk segir í svari við fyrirspurn blaðsins að það sé engin sérstök ástæða fyrir því að hún hafi ákveðið að hætta. „Mér finnst 8 ár í þessu vera fínn tími og held að það sé bara gott að hleypa nýju fólki að, ég mun þó alveg pottþétt vera til staðar fyrir nýjan oddvita til að deila reynslunni,“ segir Sóley Björk.

Gunnar Gíslason einnig á útleið

Þá er Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar, í öðru sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir komandi þingkosningar í haust og stefnir á þingsæti. Einnig hefur Gunnar Gíslason oddviti Sjálfstæðisflokksins gefið út að hann ætlar ekki að halda áfram og því viðbúið að bæjarstjórn Akureyrar mun taka breytingum næsta kjörtímabil.

 

Nýjast