20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Guðmundur Ármann og Ragnar Hólm sýna í Deiglunni
Um helgina, dagana 3.-4. desember efna Guðmundur Ármann og Ragnar Hólm til myndlistarsýningar í Deiglunni undir yfirskriftinni „Lifandi vatn“.
Eins og heiti sýningarinnar gefur til kynna, sýna þeir einkum nýjar vatnslitamyndir en Guðmundur verður einnig með fáein olíumálverk til sýnis. Fimmtán ár eru síðan þeir tveir kynntust vegna sameiginlegs áhuga á fluguveiði og urðu góðir veiðifélagar. Guðmundur hafði vatnslitina iðulega með í veiðiferðir þeirra og fljótlega ákvað Ragnar að gera slíkt hið sama.
Áhuginn á meðferð vatnslita hefur síðan undið verulega upp á sig og orðið að hreinni ástríðu. „Fluguveiðar og vatnslitun fara svo vel saman,” segir Guðmundur Ármann í spjalli við Vikudag. „Uppskrift að góðum veiðidegi getur verið sú að maður komi heim með eina vel lukkaða vatnslitamynd og engan fisk þótt það sé auðvitað best ef vel gengur bæði að veiða og lita. Veiðimaðurinn þarf að læra að lesa vatnið eins og listamaðurinn les umhverfi sitt, landið sjálft. Síðan þarf maður að læra að festa þetta á pappírinn alveg eins og veiðimaður sem les vatn þarf að læra hvernig hann ber fluguna fyrir fiskinn sem undir yfirborðinu leynist.“ Sýningin í Deiglunni verður opin frá kl. 14-18 á laugardag og sunnudag. Aðeins þessi eina sýningarhelgi.