Grímsey - Viðbrögð við slysum æfð um nýliðna helgi

Velheppnuð æfing í viðbrögðum við slysum fór fram í Grimsey um helgina.  Myndir lögreglan
Velheppnuð æfing í viðbrögðum við slysum fór fram í Grimsey um helgina. Myndir lögreglan

Það er gott að vera við öllu búin og ekki síst ef nokkuð er í aðstoð þegar eitthvað bjátar á.  Á Facebooksíðu Lögreglunar á Norðurlandi eysta er frásögn af æfingum sem fram fóru í og við Grímsey um nýliðna helgi  Annars vegar var æfing á sjó nokkuð sunnan við eyjuna og svo við flugbrautina í Grimsey þar sem likt var eftir  björgun eftir brotlendinu flugvélar.  Heimafólk fékk þarna kærkoma æfingu, og nauðsynlega auðvitað í  viðbrögðum ef óhapp hendir.

Hér fyrir neðan má svo lesa skrif lögreglu um æfingarnar

,,Að búa í fámennu einangruðu samfélagi við norðurheimskautsbaug er talsverð áskorun svo ekki sé meira sagt og ekki síst þegar eitthvað bjátar á og langt í alla frekari aðstoð.

Þetta eru aðstæður sem íbúar í Grímsey búa við og þurfa að treysta á aðstoð úr landi þegar slys ber að höndum og þá er bara í boði að koma fljúgandi eða siglandi þeim til aðstoðar, og allt tekur það jú talsverðan tíma, og er einnig mikið háð veðri hverju sinni.

Í þessu samhengi er er því nauðsynlegt að reyna að undirbúa heimafólk sem best með hvaða hætti það gæti þurft að takast á við krefjandi verkefni og slys.

Nú um liðna helgi voru haldnar tvær æfingar í Grímsey þar sem heimafólk var aðstoðað og því leiðbeint um fyrstu viðbrögð í tvenns konar slysum.

Annars vegar var haldin æfing á sjó, talsvert sunnan við eyjuna, þar sem líkt var eftir því að flugvél hafi farið í sjóinn og að leita þurfti að þeim aðilum sem þar höfðu verið um borð og flytja þá í land í Grímsey. Var sú æfing haldin í samvinnu við Landhelgisgæsluna og björgunarsveitir hér á Norðurlandi.

Varðskipið Freyja var á svæðinu, stýrði aðgerðum og hafði sér til aðstoðar björgunarskipið Sigurvin frá Siglufirði, björgunarbátinn Villa Páls frá Húsavík og tvo minni báta, annan frá björgunarsveitinni Sæþóri í Grímsey og hins vegar björgunarsveitinni á Dalvík.

Tókst sú æfing mjög vel og er ljóst að tilkoma þessara nýju sjófara, Sigurvins og Villa Páls, á okkar svæði er mikil búbót.

Hins vegar var svo æfing þar sem unnið var með það að flugvél hefði brotlent við norðurenda flugbrautarinnar, miklir eldar hefðu kviknað og fjöldi farþega slasast. Um mjög krefjandi slökkvistarf var að ræða í fyrstu og síðan tók við bráðaflokkun sjúklinga og aðhlynning við þá. Þarna reynir mikið á heimafólk í fyrstu og fjölbreyttar áskoranir svo ekki sé meira sagt. Ljóst er að biðtími eftir utanaðkomandi aðstoð er að öllu jöfnu að lágmarki 60 mínútur og eflaust talsvert lengri.

Haldin voru fræðsluerindi fyrir heimafólk í eyjunni, farið yfir bráðaflokkun sjúklinga og verkleg kennsla hvað varðar slökkvitækjanotkun svo eitthvað sé nefnt.

Þá var farið yfir það með heimafólki með hvaða hætti auðveldast væri að vera í sambandi við þá aðila sem væru að vinna að því að koma þeim til aðstoðar svo að sem bestar upplýsingar bærust til þeirra úr eyjunni um stöðu mála hverju sinni.

Heimafólk á stórt hrós skilið fyrir mikinn áhuga á því að vilja og reyna að vera sem best undirbúið þegar slys eða aðra óvænta atburði ber að höndum.

Þá fær heimafólk ekki minna hrós fyrir þær móttökur sem við fengum sem út í eyju fórum, en þær voru höfðinglegar svo ekki sé meira sagt.

Við æfingar sem þessar koma ávallt í ljós atriði sem betur mættu fara hvað varðar búnað og þekkingu. Ávallt er það von okkar að í kjölfarið horfi allir inn á við hvað þetta varðar og hugi að úrbótum svo að sem best megi ganga, þolendum í hag, næst þegar krefjandi verkefni af þessum toga verða í Grímsey.

Að æfingum þessu komu ISAVIA, Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, Landhelgisgæslan, Slysavarnafélagið Landsbjörg, björgunarsveitir á Norðurlandi, Landsspítalinn, Slökkvilið Akureyrar, HSN, RKÍ, SAk og Neyðarlínan."

 

Nýjast