Grenivík - Allir ánægðir með nýja leiksvæðið
Nýtt leiksvæði hefur formlega verið tekið í notkun við Grenivíkurskóla. Svæðið er hið glæsilegasta með litlum íþróttavelli með körfuspjöldum, fjölbreyttum leiktækjum og opnu svæði þar sem koma má fyrir hjóla/brettarömpum síðar. Hóll til að renna sér niður af var byggður upp efst á lóðinni, „Þorgeirshóll". Þá verður komið fyrir skrautgróðri á lóðinni innan um og á milli leiksvæðanna, vonandi strax á næsta ári.
Unnið var við framkvæmdir í sumar og haust og í leiðinni var vatnsinntak í skólahúsið endurnýjað og drenlagnir endurbættar. Þar er um að ræða fyrirbyggjandi viðhald, enda húsið byggt árið 1980.