Grátlega erfið staða hjá mörgum

Ekki óalgeng sjón fyrir utan heimili Sigrúnar á Akureyri. Bæjarbúar koma með matvæli sem koma þeim t…
Ekki óalgeng sjón fyrir utan heimili Sigrúnar á Akureyri. Bæjarbúar koma með matvæli sem koma þeim til góða sem hafa ekki úr miklu að moða.

-Örvæntingarfull skilaboð frá fólki sem á ekkert


mth@vikubladid.is
 
 

„Staðan er mjög erfið hjá mörgum, það er greinilegt,“ segir Sigrún Steinarsdóttir sem stendur fyrir fésbókarsíðunni Matargjafir Akureyri og nágrenni. Undanfarna daga hafa hjálpsamir bæjarbúar komið með matvæli af ýmsu tagi að heimili hennar, „og hann stoppar stutt við,“ segir hún.

Auk þess sem bæjarbúar hafa lagt fram matvæli hefur Sigrún lagt inn á Bónuskort hjá þeim sem ekki eiga mat fyrir sig og sína. „Ég er að afgreiða í bilinu 8 til 10 beiðnir á dag auk þess sem fólk er að sækja mat hér fyrir utan heima,“ segir hún.

Stöðugt bætast nýjar fjölskyldur við

„Þetta er mjög stór hópur sem ekki á fyrir mat, það er mikið af nýju fólki að óska eftir aðstoð,“ segir Sigrún og telur hópinn sem illa stendur alltof stóran. Að meðaltali afgreiði hún um 8 beiðnir á dag sem geri um 240 beiðnir í mánuði. „Ég fæ oft örvæntingarfull skilaboð, fólk á ekki neitt og þessi staða er bara hreint úr sagt grátleg,“ segir hún. „Ég var virkilega að vonast til þess að hagur fólk myndi batna, en því miður er staðan þannig að stöðugt koma inn nýjar fjölskyldur.“

Sigrún segir ungt fólk með börn áberandi í hópi þeirra sem leita aðstoðar matargjafanna, einnig öryrkjar, eldra fólk og einstæðingar. „Þetta er í raun fjölbreyttur hópur en því miður verð ég að forgangsraða, því það er alls ekki alltaf til peningar eða matur,“ segir hún en barnafjölskyldur gangi fyrir.

Nýjast