Grafið undan góðu og nauðsynlegu starfi

Leiguflug Voigt Travel er á dagskrá á tímabilinu janúar til mars 2024, alls 12 flug og félagið verðu…
Leiguflug Voigt Travel er á dagskrá á tímabilinu janúar til mars 2024, alls 12 flug og félagið verður einnig á ferðinni frá Hollandi næsta sumar.

Verið er að grafa undan góðu og nauðsynlegu starfi Markaðsstofu Norðurlands með því að hætta stuðningi við mikilvægasta verkefnið fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi segir í bókun sem gerð var á stjórnarfund MN en tilefni er það mörg af fjölmennustu sveitarfélögunum á Norðurlandi hafa hafnað beiðni MN um áframhaldandi stuðning við Flugklasann Air 66N.

Í hópi þeirra sem hyggjast ekki styðja við verkefnið áfram eru Akureyrarbær, Norðurþing, Sveitarfélagið Skagafjörður og Fjallabyggð. Verkefnið var sett á laggirnar árið 2011 og hafa sveitarfélög greitt sem nemur um 300 krónur á hvern íbúa þess í styrk árlega, en framlag Akureyrarbær verið nær 500 krónum á íbúa.

Í fundargerð stjórnar MN kemur fram að það að sveitarfélögin hætti stuðningi við verkefnið um komandi áramót þýði að óbreyttu að starf Flugklasans mun leggjast af og þar með markaðssetning fyrir beint millilandaflug til Akureyrar. Lýstu flestir stjórnarmenn vonbrigðum með þessa ákvörðun sveitarstjórnanna, sem í öllum tilfellum var tekin án nokkurs samtals við MN. Verkefnið hafi verið eitt hið mikilvægasta í starfsemi stofunnar og sé með ákvörðuninni grafið undan því.

Meirihluti stjórnar samþykkti að fela framkvæmdastjóra að óska eftir samtali við sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga, ráðuneyti ferðamála, Isavia, Íslandsstofu, Austurbrú og aðra hlutaðeigandi aðila, til þess að ræða fármögnun og stefnu fyrir markaðssetningu á beinu millilandaflugi. Það starf þurfi að fjármagna og verði ekki unnið fyrir minni fjármuni en hingað til.

Hilda Jana Gísladóttir lagði fram sérstaka bókun á fundinum þar sem hún telur sig ekki hafa umboð frá SSNE til að taka afstöðu til fjármögnunar Flugklasans og muni því sitja hjá við afgreiðslu málsins. „Fyrir hönd samtakanna bendi ég þó á að það er sameiginleg áhersla SSNE að koma á á reglubundnu millilandaflugi til Norðurlands eystra líkt og fram kemur í samþykktri Sóknaráætlun Norðurlands eystra.“

Talsvert millilandaflug er framundan um Akureyrarflugvöll en þar má , m.a. nefna að easyjet muni fljúga áætlunarflug til London frá Akureyri tvisvar í viku og hefst það nú í lok október og stendur til loka mars á næsta ári. Leiguflug Voigt Travel er á dagskrá á tímabilinu janúar til mars 2024, alls 12 flug og félagið verður einnig á ferðinni frá Hollandi næsta sumar. Leiguflug frá Sviss með Kontiki eru í boði frá febrúar til mars og þá mun Edelwiss bjóð upp á vikulegt áætlunarflug frá Sviss í júní og til loka ágúst næsta sumar.

Nýjast