Götuhornið - Strákur í 10. bekk skrifar

Þó að sumir haldi að ég sé bara að horfa út í loftið þá er ég samt alltaf að spá og hugsa.  Sumt er bara venjulegt í lífinu en annað er skrítið og sumt ruglandi. Ég skil ekki alveg allt og sumt skil ég ekki rétt.  Mamma og pabbi hafa verið að suða um það við mig í marga mánuði hvað ég ætli að verða þegar ég verð stór.  Ég sagði þeim alltaf að ég væri ekki búinn að ákveða það en eftir endalust suð sagði ég þeim það loksins að ég væri að hugsa um að verða húsasmiður en það væri víst ekki hægt. En pabbi sagði að þau væru ekki að meina hvað ég ætlaði að vinna við heldur hvort ég ætlaði að vera karl eða kona. Mæ god. Ég vissi ekki að ég þyrfti að ákveða það sjálfur. Ég lít stundum í spegilinn áður en ég fer í sturtu og hef gengið út frá því að þessari spurningu sé sjálfsvarað.  Svo las ég í Heimildinni að það væru til óteljandi kyn. Ég meika þetta ekki.

Mamma og pabbi segjast vera vók. Þegar ég var lítill vissi ég ekkert hvað það var. Afi sagðist vera frímúrari og ég hélt að pabbi og mamma væru í einhverjum svona klúbbi líka eins og afi.  Ég fór svo að spyrja þau og fékk að vita að þeir sem eru vók hafa alltaf rétt fyrir sér og eru betra fólk en allt annað fólk.  Þá er þetta ekki eins og að vera frímúrari því að afi sagði að þeir væru ekkert betri en annað fólk. Mér finnst þeir samt í flottari fötum.

Afi sagði mér líka frá einhverjum Halim Al. Maðurinn bjó hér á landi og var giftur en skildi við konuna. Þau áttu tvær dætur segir afi og mamma þeirra átti að hafa þær samkvæmt lögum. Þessi níðingur braut lögin, stal börnunum frá mömmu sinni, fór með þær ólöglega til útlanda og faldi þau. Þetta er ógeðslega ljótt. Ég var glaður þegar afi sagði mér að maðurinn var múslimi og að enginn Íslendingur mundi gera neitt svona níðingslegt við börnin sín. Líka að allir Íslendingar hefðu hjálpað mömmunni og gefið henni fullt af peningum. Hann sagði að Íslendingar stæðu alltaf með foreldrum sem börnunum væri stolið frá. Það er ógeðslega töff.

 Af hverju eru Bjarni Ben og Leoncie ekki á lista yfir fólk ársins?  Þau ættu að vera það. Þau ættu að vera svona fólk ársins saman eins og kóngur og drottning. Það er margt líkt með þeim. Hún er prinsessa frá Indlandi og hann er prins frá einhverri aflandseyju. Þau eru bæði sjálfstæð og rosalega hrifin af öllu sem þau sjálf gera þó að öllum öðrum finnist það lélegt og óþolandi. Svo eru þau mega-pirruð á Íslendingum. Hún flýr úr landi útaf því en hann flýr embætti en svo koma þau alltaf aftur. Þau eru kannski svona eins og slæmt kvef – nema bara osom. Og síðast en ekki síst er augljóst það þeim finnst báðum að þau séu ógeðslega sexí – sem ég er axjúallí sammála.

 Ég man ekki af hverju ég fór að skrifa þetta. Ég held að ég hafði bara ætlað að þakka fyrir Götuhornið.  Mamma segir að ég sé með ADHD þó ég sé margbúinn að segja henni að ég sé með AC DC. Það er uppáhaldsbandið hans afa.  - - -   Hey – snjósleði.   Verð að fara.... Bæ og gleðileg jól.

Nýjast