Götuhornið - Heimilisfaðir úr Naustahverfi skrifar

Heimilisfaðir úr Naustahverfi veltir m.a fyrir sér áberandi líkindum með embætti forseta Íslands og …
Heimilisfaðir úr Naustahverfi veltir m.a fyrir sér áberandi líkindum með embætti forseta Íslands og hlutverki sínu sem húsbóndi heimilisins.

Í morgun meðan ég varð að setja snjókeðjurnar undir jeppann minn fór ég að hugsa um það hve embætti forseta Íslands væri í rauninni líkt hlutverki mínu sem húsbóndi heimilisins.  Bæði þessi embætti eru í raun táknræn fremur en nytsamleg.  Báðum embættunum fylgja völd og áhrif í orði kveðnu en eru í raun nær alveg valdalaus. Og svo grunar mig að ég, líkt og er oft með forsetana, hafi verið valinn til embættis míns af því að ég var besti kosturinn af mörgum alslæmum. Eini munurinn er sá að forsetinn er mest upp á punt, en ef marka má konu mína þá fer því fjarri að hægt sé að nota mig þannig.

Þegar ég og mín ágæta kona hófum búskap fyrir heilli eilífð síðan sagði hún mér að það væri hennar skoðun að konur ættu ekki að vera að vasast í ákvarðanatöku um stór mál sem vörðuðu heimilið og fjölskylduna.  Það hlutverk tilheyrði karlmanninum á heimilinu. Ég féllst strax á þetta og taldi mig hafa himin höndum tekið. Ég komst síðan að því að ákvörðun um hvaða stjórnmálaflokkur fengi atkvæði okkar í alþingiskosningum og hvaða frambjóðandi í forsetakosningum teljast ætíð stór mál og sem slík heyra þau alfarið undir mig. Allar aðrar ákvarðanir eru hins vegar að sögn konu minnar litlar. Reyndar hefur þetta fyrirkomulag fært mér meiri hamingju og velsæld í lífinu heldur en þegar ég var að reyna að álpast í gegnum lífið á eigin hyggjuviti.

Mikið er ég glaður yfir nýju bílastæðagjöldunum við Akureyrarflugvöll. Ekkert hefur fært mér jafnmikla gleði á undanförnum árum en að skrapa botninn á Lödunni á ósléttu og grýttu bílastæðinu. Og nú er þessi hamingja til sölu hverjum sem njóta vill og kemur kostnaðinum við höfuðborgarferð upp fyrir sjötíuþúsundin. En þeir sem koma langt að eru auðvitað búnir að átta sig á því að það er miklu ódýrara að leggja bílnum við einhverja blokkina í Naustahverfinu og taka leigubíl niður á völl.

Ég sé að menn eru loksins að ljúka við að útrýma sólargeislum úr miðbænum og er það vel. B.S.O. stendur þó þarna eins og þrálát varta og er það vel. Öll vitum við að fólk verður að ganga til að fá leigubíl því að tæknin hefur ekki enn leyst það vandamál hvernig leigubílar eiga að komast til þeirra sem þá vilja nota.

En það er ekki allt jákvætt í þessum heimi. Heilsugæslustöðin hefur verið færð út fyrir mörk hins byggilega heims.  Við höfum ekki lengur aðgang að heilsugæslu í heimabyggð. Sjúkrahúsið er reyndar enn hérna megin og ef við viljum frá læknisþjónustu í heimabyggð út af einhverju smálegu þurfum við að kasta okkur á oddhvassan tein svo við sköðumst nógu alvarlega til að þurfa á bráðamóttökuna. Reyndar þarf ég ekki að fara til læknis.  Konan mín les yfir mér daglega langan lista yfir því hvað sé að mér og hún veit allt um það. Engir læknar geta lagað það eða stytt þann lista.

Við erum að lifa einstaka tíma og verðum sennilega eina kynslóðin sem getur sagt börnum sínum og barnabörnum að við höfum verið á lífi árið 2024 þegar fyrsta dag sumars og fyrsta vetrardag bar upp á sama daginn.  Við skulum njóta þessa einstaka atburðar.

Nýjast