20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Götuhornið - Gamall góðkunningi lögreglunnar skrifar
Við sem eru eldri en tvævetra munum eftir því þegar lögreglan var hluti af samfélaginu og skipuð mönnum sem leystu fleiri vandamál en þeir sköpðu. Lögregluþjónar gengu um á meðal fólks í svörtum jakkafötum með gyllta flautu hangandi í keðju framan á búningnum, vinsamlegir og kurteisir en þó albúnir og fullfærir um að grípa inn í af fullu afli ef nauðsyn var. Þeir voru alls ekki óvopnaðir því að innan við hægri buxnaskálmina og niður með lærinu var allþung trékylfa sem ekki var þægilegt að vera á hinum endanum á. Sumar drottningar næturinnar töldu reyndar að þarna væri falið annarskonar verkfæri en ekki verður farið nánar út í það hér.
Við strákarnir áttum köflótta sögu samskipta við þessa lögreglumenn en hún var þó að mestu án vandræða. Þegar okkur hitnaði milli eyrnanna og hendur voru látnar skipta komu þessir menn, gripu okkur og færðu okkur til hliðar. Svo var maður spurður: „Eruð þið ekki búnir að ná þessu úr ykkur strákar?“ eða „Er ekki skynsamlegra að eyða orkunni í kvennafar?“ Oftast gengu menn sáttir frá borði en ef einhver kólnaði ekki á vettvangi var honum e.t.v. ekið upp að Möl og sandi eða suður að Kjarnaskógi og látinn róast á göngunni til baka. Annars þurfti að setja menn í steininn. Einstaka sinnum sagði maður eitthvað við þessa ágætu menn sem truflaði samviskuna næsta dag. Þá var bara að hysja upp um sig buxurnar, fara niður á stöð og biðjast fyrirgefningar. Margir vina minna segja mér að þeir eigi þessum ágætu lögreglumönnum það að þakka að þeir náðu fótfestu í lífinu og komu því inn á rétt spor.
En nú er ég orðinn gamall og hef ekki skrokk eða lifur sem ráða við vikulegt slark fram í birtingu. Ég hlera þó enn eftir slarksögum og líst ekki vel á það sem ég heyri. Ég heyri sögur af lögreglumönnum sem fara ekki út á meðal fólks nema í brynjum og hnífavestum og koma fram við fólk með hroka, yfirlæti og lítilsvirðingu. Sérhver athöfn fólks er túlkuð sem brot og ef númersljós bíls er til að mynda ekki í réttum hvítum lit fá menn sekt og boðun í endurskoðun sem kostar tugi þúsunda. Ef einhver er ósammála er hann sagður ógnandi. Allt virðist gert til að búa til eins mikil vændræði og mögulegt er. Andrúmsloftið milli lögreglunnar og fólksins hefur breyst og lögreglan virðist vera að einangrast í eigin veröld á bak við ósýnilega bláa línu. Og bak við þá línu er stutt í stemmingu sem þolir illa dagsljós eins og kynþáttahyggju, óhóflegt ofbeldi og niðurlægjandi misnotkun þeirra sem minna mega sín svo sem með kaupum nektardansi eða annarri kynlífsþjónustu. Dýrmætasta eign íslensku lögreglunnar, sem var það traust sem almenningur bar til hennar, er að rýrna og hverfa. Þá er ekkert annað framundan en vantraust og fjandskapur. Ein sem ég ræddi við sagðist viss um að þessi breyting hefði komið með nýjum herrum.
En þrátt fyrir allt þetta sér maður stundum hina eldri og reyndari lögreglumenn koma út á meðal fólks eins og í gamla daga. Þeir eru einkennisklæddir en sýna sig óhræddir og án þess að fela sig bakvið hnífavesti með öll hugsanleg valdbeitingartæki hangandi utan á sér. Vingjarnlegir, þægilegir, hugrakkir og ábyrgir menn sem enn leysa fleiri vandamál en þeir búa til.