Götuhornið - Bóndi framan úr firði skrifar

Mjólk er góð en  bændur þyrftu að hafa efni á að framleiða hana
Mjólk er góð en bændur þyrftu að hafa efni á að framleiða hana

Mikið er ég ánægður með að háskólarnir útskrifi mikið af ungu fólki sem hefur mikið vit á allskonar fræðigreinum. Við eigum nóg af viðskiptafræðingum, lögfræðingum, búfræðingum, læknum og hjúkrunarfræðingum og svo eigum við líka allskonar fræðinga í nýjum greinum sem finna upp ný kyn og ný og áður óþekkt vandamál sem nauðsynlegt er að leysa og nota til þess skattpeninga sem nóg er af.  Við eigum meira að segja sprenglærða lögreglufræðinga sem þó komast ekki með tærnar þar sem Palli á Litla-Hóli hafði hælana.

 Ástæðan fyrir þessari ánægju minni er sú að ég hef verið í vandræðum með reksturinn á kúabúinu mínu sem áður stóð ágætlega undir sér og aflaði tekna fyrir mig og fjölskyldu mína. En með árunum jókst kostnaðurinn, mjólkurverðið lækkaði og reglugerðafarganið varð óbærilegt. Það liggur við að ég megi ekki lengur hreyfa mig nema mér fylgi eftirlitsmaður frá ríkinu sem ég þarf svo að borga fyrir.  Búið stendur ekki lengur undir þessu.

 Þetta gat auðvitað ekki gengið lengur. Ég fór þess vegna að fylgjast með ríkisstofnunum okkar.  Forstjórar þeirra eru jú valdir á grundvelli hæfni og reka þær að sögn á hagkvæmasta mögulega máta.  Nærtækast var að fylgjast með heilsugæslunni af því að þangað þarf ég að koma oftar og oftar eftir því sem árin líða. Ég sé að þaðan hverfa læknar, ljósmæður og hjúkrunarfræðingar en af því hlýtur að verða ómældur sparnaður.  Í stað þess koma mannauðsstjórar og svo er auglýst eftir mannauðsfulltrúum til að mannauðsstjórinn hafi einhverja undirmenn.  Ég hef nú rekið vinnumanninn, selt tvo traktora og bindivélina. Ég rak reyndar líka kellinguna mína. Hún hefur reyndar aldrei fengið neitt borgað en mér fannst vissara að gera það samt. Í stað  þessa réði ég til mín mannauðsstjóra og tvo verkefnastjóra. Þau hafa búið til verkferla og gæðahandbók og við mundum funda daglega í vinnuhópum um hin ýmsu bústörf.  Nú er ekkert eftir annað en að fá ráðgjafafyrirtæki til að búa til nýtt vörumerki fyrir búið, finna grunngildi þess og semja einkunnarorð. Ég hef miklar væntingar til hagræðingarinnar af þessu og hlakka til að fara efnaður inn í efri árinu.

Nýjast