Göngum flýtt víða en sums staðar var það ekki hægt

Það er ansi haustlegt því verður vart neitað.   Mynd Eydís Sigurgeirsdóttir
Það er ansi haustlegt því verður vart neitað. Mynd Eydís Sigurgeirsdóttir

„Þetta var ekki góð sending, að fá þessa öflugu haustlægð yfir okkur svo snemma hausts,“ segir Sigurgeir Hreinsson framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Veður var afleitt í byrjun vikunnar og gular og appelsínugular viðvaranir í gildi. Bændur flýttu í einhverjum tilvikum göngum vegna veðursins.

„Við  höfum áhyggjur af þessu en enn hefur allt sloppið til,“ sagði Sigurgeir sem eins og flestir beið þess að veður gengi niður. Hvassviðri úr norðri, mikil bleyta og snjókoma til fjalla einkenndu veðurfarið á fyrstu dögum vikunnar.

„Það er víða búið að ganga, m.a. í Eyjafjarðarsveit, en ég veit að einhver svæði voru eftir, t.d. i Hörgársveit, Fnjóskárdal og Flateyjardal. Það þarf mikinn mannskap í göngurnar og þær eru skipulagðar fyrir löngu með það í huga að hafa nægan mannskap þannig stundum er ekki hægt að hnika þeim til,“ segir Sigurgeir.

Blautir kartöflugarðar

Hann segir afleitt að fá svo mikla bleytu nú sem bætist við miklar rigningar sem voru í ágústmánuði. Hún geti sett strik í reikninginn hjá kartöflubændum en máttu ekki við meiri bleytu í garða sína. „Upptaka var ekki komin mikið af stað, það á örugglega eftir að taka upp bróðurpart uppskerunnar á þessu hausti svo þetta er bagalegt,“ bætir hann við og að ekki bæti úr skák að spáð sér drjúgu næturfrosti í ofanálag.

„Þetta er almennt mjög pirrandi og menn tala um að það séu álög yfir árinu og finnst veðurfarið hafa verið heldur í leiðinlegri kantinum lengi,“ segir hann.


Athugasemdir

Nýjast