Gömul ryðguð skæri í pakkanum frá ömmu

Það er nóg að gera hjá Ingibjörgu Reynisdóttir þessa dagana.
Það er nóg að gera hjá Ingibjörgu Reynisdóttir þessa dagana.

Það má segja að Ingibjörg Reynisdóttir hafi marga titla en hún er meðal annars rithöfundur, leikkona, handritshöfundur og fótaaðgerðafræðingur. Hún er fædd og uppalin í Laugardalnum í Reykjavík og hefur ekki flutt úr hverfinu síðan, fyrir utan nokkra ára búsetu í Danmörku fyrir aldamót. Hún býr með manninum sínum Óskari Gunnarssyni og syni sínum Reyni Óskarssyni. Ingibjörg er oftast með mörg járn í eldinum en hún skrifaði meðal annars bókina Gísli á Uppsölum sem var metsölubókin árið 2012. Ingibjörg er jólabarn en við fáum aðeins að skyggnast inn í líf hennar hvað varðar jólin.

Hvað ertu að bardúsa þessa dagana?

„Ég hef bara sjaldan haft eins mikið að gera eins og núna í nóvember, var að klára grunnnám hjá Dáleiðsluskóla Íslands, tók þátt í opnunarsýningu Reykjavík Dance festeval í Borgarleikhúsinu sem heitir When the bleeding stops. Verkið er eftir dansarann Lovísu Ósk Gunnarsdóttur, frábær einleikur með dansþema sem fjallar um breytingaskeið kvenna, nálgunin er skemmtileg og vonandi fáum við tækifæri til að fara með hana víðar. Það bar einmitt á góma eftir sýninguna að það væri ekki leiðinlegt að fara með hana norður á Akureyri og hver veit hvernig það fer. Einnig stendur til að fara í handritasmiðju út á land í lok mánaðarins með góðum hópi fólks en þar verður rýnt í handrit sem við erum öll að vinna að til að þróa þau áfram. Síðast en ekki síst þá varð ég amma 13. nóvember sem var alveg einstök tilfinning og ömmustelpan algjörlega fullkomin og bræddi ömmuhjartað við fyrstu kynni.“

Ingibjörg gvatemala

Ingibjörg naut sín í Guatemala í janúar 2020.

Mikið jólabarn og dásamlegur árstími

Ertu mikið jólabarn?

„Já, ég hef alltaf verið mikið jólabarn og finnst þessi tími alveg dásamlegur. Ég verð reyndar að viðurkenna að sum árin er ég minna stemmd fyrir þeim en önnur, sérstaklega svona í seinni tíð en það fer dálítið eftir því hversu mikið er að gera hjá mér. Stundum finnst mér yfirþyrmandi að þurfa að storma í verslunarmiðstöðvar að kaupa jólagjafir og brjóta heilann um það hvað hentar fyrir hvern og einn. Eins finnst mér stundum ákveðnar kvaðir fylgja þessum tíma, hefðir sem ekki er hægt að hrófla við en auðvitað er það hugarfarið sem skiptir máli og maður reyni að einsetja sér að njóta þessara hluta.“

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt? Er saga á bakvið það?

„Þau eru alveg nokkur, lagið Last Christmas með Wham hefur ákveðinn sess í mínu hjarta því það minnir mig á unglingsárin, gamla góða tíma, jólaplata Mariah Carey gerir það líka. En svo eru lög eins og Hátíð í bæ sem minna mig á barnæskuna, sveitina, ömmu og afa, platan Í hátíðarskapi hefur alltaf verið mikið spiluð á mínu heimili og svo kemst maður í ákveðið hátíðarskap þegar hlustað er á Heims um ból og öll lögin á jólaplötunni hennar Diddú.“

Jólatréð skreytt á Þorláksmessu

Hverjar eru þínar jólahefðir?

„Það hefur tíðkast á mínu heimili að skreyta jólatréð á Þorláksmessu. Maðurinn minn sér að mestu leyti um bakstur því ég er afleit í þeim efnum og það er ákveðin gerð af smákökum sem hann gerir sem rennur út um leið og þarf alltaf að baka aftur. Eins gerir hann rauða köku sem er alltaf á boðstólnum á aðfangadag þegar fólk er að renna við með pakka og þá hittist oft fólk úr öllum áttum og fær sér kaffi og köku. Við gerum alltaf ís með möndlu þannig að það er möndlugjöf og það bregst ekki að pabbi þykist alltaf vera með möndluna með ákveðinni leikrænni tjáningu sem virkar alltaf þannig að börnin við borið fara að úthrópa afa sinn. En svo eru það þetta bara þessi hefðbundnu jólaboð og við bjóðum alltaf tengdafólkinu í mat í kringum þrettándann þar sem þau gæða sér á rjúpum sem ekki eru lengur borðaðar í fjölskyldunni á sjálfan aðfangadag.“

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

„Kökurnar hans Óskars, fara í bæinn á Þorláksmessu, mér finnst Þorláksmessa mjög sjarmerandi dagur, spila Kana við vinkonur mínar á milli jóla og nýárs, jólaljósin og falleg jólalög.“

Alltaf einhverjar gjafir eftir

Áttu skemmtilega jólaminningu?

„Amma mín gat verið dálítið fljótfær stundum og það var ein jólin sem ég var að opna pakka frá henni, ég man ekkert hvað hún gaf mér þau jólin en það sem ég man var að í pakkanum voru m.a. gömul ryðguð skæri sem var mikið hlegið af. Það kom á daginn að hún var að pakka inn með einhverjum látum og skildi svo ekkert í því þegar hún ætlaði að fara að pakka inn næsta pakka hvað varð eiginlega um skærin. Þau höfðu þau óvart lent í mínum pakka í öllum æðibunuganginum.“

Ertu týpan sem kaupir gjafir tímanlega eða á seinustu stundu?

„Oftar en ekki á síðustu stundu en það hafa þó verið undantekningar. Mér hefur líka tekist að gera það hratt og örugglega. Ég er farin að fara út með tékklista og fer þá gagngert í stóra innkaupaferð og klára það mesta í þeirri ferð. En ég er týpan sem er svo alltaf að bæta aðeins við, lauma aðeins meiru með. En það eru alltaf einhverjar gjafir eftir þannig maður er að klára þetta fram á síðustu dagana, sama hvað maður reynir að vera skipulagður.“

 

LRÞ

Nýjast