20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Góð aðsókn í Skógarböðin um hátíðarnar
„Það hefur verið virkilega góð aðsókn í Skógarböðin,“ segir Kjartan Sigurðsson framkvæmdastjóri Skógarbaðanna sem opin hafa verið til miðnættis yfir jól og verða einnig um áramót. Á gamlárskvöld verður opið fram yfir miðnætti til að gefa gestum kost á að njóta þess að horfa á flugeldana úr böðunum.
„Við sjáum að fjölskyldur og vinahópar eru að búa sér til nýjar hefðir með því að koma saman í Skógarböðunum fyrir jól og um hátíðarnar og það er virkilega gaman að því,“ segir Kjartan. Ekkert lát er á vinsældum baðanna en um 200 þúsund gestir hafa sótt þau frá því opnað var í lok maí í fyrra.
Langur afgreiðslutími var að sögn Kjartans ákveðinn í fullri sátt við starfsfólk. Að hluta til voru vaktir styttar suma daga. „Það hefur verið mikið um gesti hjá okkur þessa daga og við erum ánægð með það. Við hlökkum til að sjá hvernig gamlárskvöld kemur út, við sýnum Áramótaskaupið á stórum skjá og það verður opið fram yfir miðnætti þannig að baðgestir geta notið þess að horfa á flugelda á meðan þeir slaka á í heitu baði,“ segir Kjartan.
Í fyrra var ekki var eins mikið opið um jól og áramót en Kjartan segir að gestir kunni vel að meta langan opnunartíma. „Það er um að gera að brjóta upp og sýna frumkvæði. Það er fjöldi ferðamanna á svæðinu þessa daga og heimamenn vilja einnig njóta.“