Gísli læknir kveður eftir meira en 50 ár

Gísli Auðunsson, læknir. Mynd úr safni/JS
Gísli Auðunsson, læknir. Mynd úr safni/JS

Gísli Auðunsson, læknir á Húsavík hefur lagt hlustunarpípuna á hilluna eftir langan og farsælan feril. Síðastliðið haust fagnaði Gísli 50 ára starfsafmæli á Húsavík en hann tók til starfa í bænum haustið 1966. Hann lauk prófi árið 1964 og hóf sitt kandídatsár á Eskifirði í júní sama ár.

Gísli gekk sinn síðasta stofugang á sjúkrahúsinu á Húsavík í gær en hann fagnaði 80 ára afmæli sínu í janúar á þessu ári. Í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í dag segir Gísli að þetta sé orðinn langur og góður starfsferill sem hann kveðji sáttur.

Hann segir jafnframt að nú geti hann loks sinnt skógræktinni í fullu starfi en hann hefur starfað sem skógarbóndi á jörð sinni Lindarbrekku í Kelduhverfi síðastliðin 20 ár.

Gísli hefur verið einstaklega vel liðinn í samfélaginu á Húsavík og notið bæði virðingar og trausts. Það er óhætt að fullyrða að Gísla verði sárt saknað, bæði af sjúklingum og samstarfsfólki.

Nýjast