Gestastofu náttúruverndarsvæða komið á fót í Mývatnssveit

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Árni Bragason, Landgræðslustjóri, Árni Einarsson,…
Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Árni Bragason, Landgræðslustjóri, Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlinda-ráðherra, setti á mánudag formlega af stað uppbyggingu gestastofu á Skútustöðum í Mývatnssveit.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur fram að ríkið festi í byrjun ársins kaup á fasteigninni Hótel Gíg á Skútustöðum í Mývatnssveit sem upphaflega gegndi hlutverki barnaskóla sveitarinnar og eru breytingar á húsnæðinu hafnar.

Að breytingunum loknum mun Gígur hýsa gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs og náttúruverndarsvæða í Mývatnssveit, auk starfsaðstöðu fyrir starfsfólk þjóðgarðsins og þriggja annarra stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins; Umhverfisstofnunar, Landgræðslunnar og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (Ramý).

Áhersla á endurnýtingu og hringrásarhagkerfi

Í stað hefðbundinnar skóflustungu að nýrri gestastofu tóku umhverfis- og auðlindaráðherra og forstjórar stofnanna fjögurra, auk sveitarstjóra Skútustaðahrepps, sér verkfæri í hönd og tóku niður hurðir á því sem áður voru hótelherbergi en munu verða skrifstofurými fyrir stofnanirnar. Hurðunum hafa þegar verið fundnar nýjar hjarir á öðrum stað í Mývatnssveit, í anda hringrásarhagkerfisins.

Allt kapp hefur verið lagt á að nýta innréttingar og innanstokksmuni í húsinu ellegar finna þeim nýjan stað eða nýtt hlutverk annars staðar. Húsið, sem áður hýsti Skútustaðaskóla, stendur á einstökum útsýnisstað við Mývatn og þóttu kaup á því hagstæður kostur fyrir ríkissjóð sem gætu um leið skapað tækifæri í Mývatnssveit. Skútustaðahreppur hefur áform um að nýta hluta af húsnæðinu undir atvinnuskapandi nýsköpun og þekkingarsetur. Einnig gefst möguleiki á að útbúa þar starfsaðstöðu fyrir opinber störf án staðsetningar, t.d. á vegum annarra stofnana ríkisins, háskóla og rannsóknaraðila.

Þjónustunet Vatnajökulsþjóðgarðs með sex meginstarfsstöðvum

Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð er kveðið á um lögbundin áform ríkisins um að halda úti sex meginstarfsstöðvum þjóðgarðsins sem mynda þjónustunet. Þegar hafa meginstarfsstöðvar í Ásbyrgi, Skaftafelli, á Skriðuklaustri og Hornafirði verið settar á laggirnar og bygging meginstarfsstöðvar á Kirkjubæjarklaustri er hafin. Með uppbyggingu gestastofu í Mývatnssveit er því búið að fullnusta uppbyggingu þessa mikilvæga þjónustunets Vatnajökulsþjóðgarðs.

„Á Gíg tekst okkur ekki bara að finna gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs og náttúruverndarsvæða í Mývatnssveit varanlegt heimili heldur lítur út fyrir að þarna geti orðið suðupottur hugmynda og starfstöðvar margra ólíkra stofnana“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Aðferðafræðin sem er viðhöfð við uppbygginguna á Gíg er auk þess skínandi dæmi um hringrásarhagkerfið að verki og það finnst mér sérstaklega ánægjulegt að sjá.

Nýjast