Gervigreindin og háskólar - útgáfa bókar

Helena, Helgi Freyr og Sigríður með kafla í nýútgefinni bók
Helena, Helgi Freyr og Sigríður með kafla í nýútgefinni bók

Fyrir áramót kom út bókin Generative Artificial Intelligence in Higher Education á vegum Libri Publishing Ltd. Bókin fjallar um skapandi gervigreind í háskólasamfélaginu. Bókinni er ætlað að styðja starfsfólk háskóla við innleiðingu gervigreindar á ýmsum sviðum. Töluverðar umræður hafa átt sér stað í samfélaginu um notkun gervigreindar, ýmsar siðferðilegar áskoranir og heiðarleika í vinnu, námi, rannsóknum og kennslu. Með tilkomu nýrrar tækni er mikilvægt að skoða hvaða hlutverk og hvaða möguleika notkun gervigreindar getur fært okkur.

 Einn kafli bókarinnar er skrifaður af starfsfólki skólans, þeim Helenu Sigurðardóttur, kennsluráðgjafa og Helga Frey Hafþórssyni, verkefnastjóra margmiðlunar, sem bæði starfa við Kennslu- og upplýsingatæknimiðstöð ásamt Sigríði Halldórsdóttur, emirita. Kaflinn þeirra fjallar um meginkosti og takmarkanir notkunar gervigreindar í háskólasamfélaginu, bæði fyrir háskólanema og háskólakennara. Höfundar hönnuðu líkan sem miðar að því að innleiða notkun gervigreindar á ábyrgan og skilvirkan hátt í háskólasamfélaginu. Markmiðið með þróun líkansins var að brúa bilið milli fræðilegs skilnings á gervigreind, hagnýtrar notkunar og stuðla að þróun stafrænnar og siðferðislegrar hæfni í notkun gervigreindar.

Bókinni ritstýra Kayoko Enomoto, dósent og Richard Warner, stundakennari, sem báðir starfa við Háskólann í Adelaide ásamt Claus Nygaard, prófessor og framkvæmdastjóra Institute for Learning in Higher Education (LiHE).

Upplýsingar um bókina má finna hér og bókina sjálfa má finna á bókasafni skólans. Þá er hægt að finna tvö erindi sem Helgi og Helena héldu á ráðstefnu Kennsluakademíunnar í tengslum við efnivið bókarinnar, hér og hér.

 

Nýjast