Geðhjálp hefur áhyggjur og segir málið snúast um sparnað

Þjónusta sú sem barna- og unglingageðteymi (BUG) hefur veitt á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk.) mun fæ…
Þjónusta sú sem barna- og unglingageðteymi (BUG) hefur veitt á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk.) mun færast til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) frá og með 1. október næstkomandi. Markmiðið með þessari tilfærslu er að efla þjónustu og samfellu í geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni á Norður- og Austurlandi undir hatti HSN. Geðhjálp hefur áhyggjur og telur þetta ekki skref í rétta átt heldur virðist snúast um sparnað.

Þjónusta sú sem barna- og unglingageðteymi (BUG) hefur veitt á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk.) mun færast til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) frá og með 1. október næstkomandi. Markmiðið með þessari tilfærslu er að efla þjónustu og samfellu í geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni á Norður- og Austurlandi undir hatti HSN.

Á undanförnum árum hefur átt sér stað markviss uppbygging á sálfélagslegri þjónustu HSN og þar er nú rekið öflugt teymi fagfólks sem þjónustar bæði börn og fullorðna á Norðurlandi.

Í tilkynningu frá HSN vegna málsins er áréttað að SAk mun áfram sinna bráðaþjónustu fyrir börn og unglinga á svæðinu og SAk. og HSN koma á verklagi um samvinnu vegna bráðamála sem koma beint til SAk.

Undirbúningur að framkvæmd yfirfærslunnar er þegar hafinn og er með þeim hætti að ekki verði rof í geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni á Norður- og Austurlandi.

Vísbendingar um að geðheilsu barna fari hrakandi

Stjórn landssamtakanna Geðhjálpar lýsir yfir áhyggjum af fyrirhuguðum breytingum á þjónustu við börn og ungmenni sem eru að glíma við geðrænar áskoranir á Norður- og Austurlandi og bendir á undanfarin ár hafi dregið úr geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni á landsbyggðinni og það þrátt fyrir verulegan vöxt í bráðatilfellum og vaxandi vanda hjá börnum.

„Það eru vísbendingar um að geðheilsu barna og ungmenna fari hrakandi og ekki síst í kjölfar COVID,“ segir í tilkynningu frá Geðhjálp sem telur að stjórnvöld, ríki og sveitarfélög hafi sofið á verðinum. Það hafi samfélagið einnig gert.

„Við verðum að efla þjónustu í nærumhverfi og alls ekki draga úr henni eins og þessi aðgerð því miður mun hafa í för með sér. Í nútímasamfélagi á grunnþjónustan að vera í nærumhverfi fólks – frá forvörnum til þriðja stigs heilbrigðisþjónustu.“ Á jafn fjölmennu svæði og Norðausturland er verður að vera til staðar öflug annars og þriðja stigs geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og ungmenni. Flutningur þjónustunnar frá SAk á heilsugæslu er ekki skref í rétta átt og virðist einungis snúast um sparnað.


Athugasemdir

Nýjast