Gaukshreiðrið í Freyvangsleikhúsinu: Góð blanda af hlátri og gráti og öllu þar á milli

Gaukshreiðrið verður frumsýnt í Freyvangsleikhúsinu um miðjan febrúar. Magnað verk í öllum sínum lit…
Gaukshreiðrið verður frumsýnt í Freyvangsleikhúsinu um miðjan febrúar. Magnað verk í öllum sínum litum segir formaðurinn.

„Gaukshreiðrið varð fyrir valinu í samræðu við leikstjórann,“ segir Jóhanna Ingólfsdóttir formaður Freyvangsleikhússins en þar á bæ hófust æfingar nýverið á samnefndu leikverki sem unnið er upp úr bók Ken Kensley og leikgerð Dale Wasserman í þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar. Leikstjóri er Gunnar Björn Guðmundsson. Frumsýning er áætluð 16.febrúar.

„Þetta er svo magnað verk í öllum sínum litum. Það er góð blanda af hlátri og gráti með öllu þar á milli,“ segir hún.

Jóhanna segir að verl hafi gengið að manna í hlutverk en fjöldi manns tekur þátt í uppfærslunni. „Það gekk mjög vel að finna fólk í öll hlutverk, það eru 23 leikarar á sviði en það mættu um 40 manns í samlestur svo áhuginn er mikill. Hópurinn er mjög fjölbreyttur og aldusbilið rúmlega 40 ár á yngsta leikara og þeim elsta og einnig er öll víddin á reynslu.

 Gaukshreiðrið segir sögu indíanahöfðingjans Bromden sem hefur verið lengi á geðsjúkrahúsi í Bandaríkjunum. Með hlutverk hans fer Ingólfur Þórsson. Bromden segir frá komu R.P. McMurphy á deildina og hvaða áhrif hann hafði á sjúklinga og starfsfólk hælisins. McMurphy sem er leikinn af Freysteini Sverrissyni, hafði séð sér leik á borði og leikið sig geðveikan til þess að losna við fangelsisvist. Hann lendir þar í útistöðum við frú Ratchet forstöðukonu hælisins sem stjórnar hælinu vægast sagt með harðri hendi. Með hennar hlutverk fer Aðalbjörg Þórólfsdóttir.

 

Hrollvekjandi ádeila á kerfið

 Verkið lýsir á beinskeittan hátt aðstæðum og þann uppreisnaanda sem ríkti í Bandaríkjunum og víðar á 7. áratug síðustu aldar sem og þeirra meðferð sem geðsjúkir bjuggu við og hvernig litið var á geðsjúkdóma á þessum tímum.

Gaukshreiðrið er hrollvekjandi ádeila á kerfið og þeim meðferðum sem beitt var en lýsir á sama tíma einstöku sambandi sjúklinganna og hvernig þeir glíma við harðræði og niðurlægingu yfirvaldsins. Leikverkið inniheldur í senn sorg, gleði, hrylling og illsku svo verið tilbúin í að taka á öllum ykkar tilfinningaskala.

 Leikstjóri er Gunnar Björn Guðmundsson.

Nýjast