Gasalega norðlenskt
Eyjafjörður á langa og áhugaverða sögu sem tengist bæði matvælaframleiðslu og neyslu frá láði og legi. Lengstum enduðu allar matarleifar og lífrænn úrgangur í urðun upp á Glerárdal. Svo var reist glæsileg meðferðastöð á Þveráreyrum í Eyjafjarðarsveit sem tekur við öllum matarleifum og sláturúrgangi og veitir syndaaflausn með stýrðu niðurbroti. Verksmiðjan býr svo líka til dýrindis, umhverfisvænan áburð úr hráefninu í formi moltu. Urðun jafngildir nefnilega útblæstri á gróðurhúsalofttegundum og starfsemi Moltu jafngildir útblástursminnkun sem jafnast á við innleiðingu á um 5.000 rafbílum. Þess má geta að hreinir rafbílar á Akureyri eru um 65 í dag.
En förum aðeins aftur í tímann og rekjum sögu matvæla sem enduðu á Glerárhaugum. Þegar matarleifar og annar lífrænn úrgangur var urðaður á sínum tíma, byrjuðu leifarnar að brotna niður við loftfirrtar aðstæður í haugnum. Það er súrefniskortur þarna niðri og því myndast hauggas frekar en koltvísýringur þegar lífrænt efni brotnar niður. Hauggas er sérlega slæm gróðurhúsalofttegund, meira en tuttugu sinnum öflugri en CO2. Gasið frá haugnum síast svo rólega upp í gegnum jarðveginn og sleppur svo á endanum út í andrúmsloftið. Friðsæli Glerárhaugurinn hefur sem sagt verið að menga gríðarlega, löngu eftir að honum var lokað.
En þá greip Norðurorka inní. Norðurorka er einmitt fyrirtækið sem þú átt, lesandi góður, og nýtir jafnframt þjónustu þess með upphitun, raforku- og vatnsnotkun auk þess sem fyrirtækið þitt rekur fráveituna. Sem sagt, þá greip Norðurorka inní og fjárfesti í búnaði til að fanga hauggasið og framleiða metan.Það er gríðarlegur umhverfisávinningur fólgin í því að fanga haugasið, áður en það sleppur í lofthjúpinn, og brenna það svo á bifreiðum. Í stað þess að hauggasið endi sem skaðleg gróðurhúsaloftegund er því nú safnað og breytt í hágæða eldsneyti í formi metans, sem er bæði ódýrara en jafnframt margfalt umhverfisvænna en bensín og dísill. Og það sem meira er, metanbílar eru ódýrari í innkaupum og hafa einnig varabensíntank sem hægt er að nota ef metanafgreiðslustöð er ekki í boði. Gallinn er að ef eyfirsk fyrirtæki og einstaklingar nýta ekki þetta norðlenska eldsneyti þá tapast það sem uppgufun. Það er ekki bara hrikaleg sóun heldur stuðlar það að neikvæðum loftlagsbreytingum.
Nú er um að gera fyrir fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga að heimsækja Höld, kaupa metan Skoda eða VW golf, keyra upp á metanstöð og fylla bílinn af ekta norðlensku hágæðaeldsneyti. Á meðan þið dælið getið þið velt því fyrir ykkur hvaðan þetta gas er upprunalega komið en það gæti verið frá KEA saxbauta, Kristjáns laufabrauði, pylsu með rauðkáli eða hamborgara með frönskum á milli sem ekki tókst að klára og endaði í urðun á Glerárdal. Þið eigið Norðurorku og þess vegna er þetta eldsneytið ykkar sem er miklu skemmtilegra að brúka en olíu frá Miðausturlöndum. Annað er reyndar sóun.
-Höfundur er framkvæmdastjóri Orkuseturs