20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Gæslan hafi fasta starfsstöð fyrir þyrlu á Akureyri
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að fela dómsmálaráðherra að beita sér fyrir því að Landhelgisgæslan komi upp fastri starfsstöð fyrir eina af þyrlum sínum á Akureyri. Alls eru flutningsmenn þingsályktunartillögunnar 15 talsins úr fjórum flokkum.
Með því að bæta við sjöundu þyrluáhöfninni væru tvær áhafnir til reiðu 95% af árinu. Það er mikilvægt skref sem nauðsynlegt er að stíga til þess að efla björgunargetu þyrluflugsveitar Landhelgisgæslunnar segir í tillögunni.
Talið er að árlegur rekstrarkostnaður þyrlu á Akureyri sé um 500 milljónir króna og að uppbygging flugskýlis á Akureyrarflugvelli kosti 200–300 milljónir króna. Nú þegar eru til staðar flugvirkjar sem geta sinnt viðhaldi auk þess sem starfsmenn í heilbrigðisstofnunum, slökkviliði og fleiri sem geta nýst starfseminni.
Auk þess sem Akureyri er miðsvæðis á landinu, er augljós tenging við sjúkraflugið í landinu sem er staðsett á Akureyri. Þar geta læknar á Akureyri mannað hluta þyrluáhafnar eins og nú er reyndin í tengslum við sjúkraflugið. Í þessu samhengi er rétt að benda á að í fjölmiðlum hefur komið fram að tveir af sex þyrluflugstjórum gæslunnar búa fyrir norðan.
Hlutfall þyrluflugs hefur verið um 15% af heildarsjúkraflugi í landinu. Mýflug hefur sinnt um 85% af sjúkrafluginu með sínum tveimur flugvélum.
Fjarlægðirnar eru miklar og veðuraðstæður með þeim hætti að til að sinna sjúkraflutningum á austurhluta landsins með sjúkraþyrlum, í þeim tilfellum þar sem erfitt er að koma sjúkraflugi við, yrði nauðsynlegt að staðsetja þyrlu á svæðinu. Það er ekki langt síðan að sjöttu þyrluáhöfninni var bætt við hjá Landhelgisgæslunni sem þýðir að það eru tvær áhafnir á vakt um tvo þriðju hluta ársins. Með því að bæta við sjöundu þyrluáhöfninni væru tvær áhafnir til reiðu 95% af árinu. Það er mikilvægt skref sem nauðsynlegt er að stíga til þess að efla björgunargetu þyrluflugsveitar Landhelgisgæslunnar.