Fyrsta sjónvarpsþáttasería fyrir börn tekin upp og framleidd á Akureyri
Upptökur á glænýrri íslenskri sjónvarpsþáttaröð fyrir börn hófust í síðustu viku hjá N4 á Akureyri og er það í fyrsta sinn sem vitað er að slíkt sjónvarpsefni sé að fullu unnið utan höfuðborgarsvæðisins. Þættirnir eru gerðir í samstarfi við fræðslusvið þjóðkirkjunnar sem sr. Hildur Björk Hörpudóttir stýrir, og nefnast Himinlifandi.
Í tilkynningu frá N4 segir að þættirnir verði sýndir á N4 í haust á sunnudagsmorgnum og verða auk þess aðgengilegir á samfélagsmiðlum kirkjunnar og N4. Handritshöfundar og aðalleikarar eru hjónin Margrét Sverrisdóttir og séra Oddur Bjarni Þorkelsson á Möðruvöllum sem jafnframt semur tónlist ásamt Rósu Ásgeirsdóttur. Allir þeir sem koma að gerð þáttanna starfa hjá N4 og segist María Björk Ingvadóttir framkvæmdastjóri N4 afar þakklát því trausti sem Kirkjan sýni með því að leita til N4 um gerð þáttanna, með því sé stigið nýtt og stórt skref í að vinna slíka þætti með fagfólki á landsbyggðunum.
Pétur G. Markan samskiptastjóri Þjóðkirkjunnar tekur undir þessi orð og segist hlakka til að fylgjast með framvindu vinnunnar.
„Ég tel boðskapinn í þáttunum mikilvægan enda eru kristin gildi eitthvert besta veganesti sem hver og einn getur tekið með sér út á ævibrautina – út í hinn víða heim og aftur heim. Gildi sem við viljum tileinka okkur þar sem náungakærleikur, umhverfisvernd, manngildi, og samkennd er sterki þráðurinn sem allt hverfist um,“ er haft eftir Pétri í tilkynningu.
„Svo er það líka svo að það er afar mikilvægt fyrir landsbyggðarstofnun, eins og þjóðkirkjan er, að vinna metnaðarfullt tímamóta verkefni alfarið norðan heiða. Það sýnir sérstöðu þjóðkirkjunnar sem við erum afar stolt af. Ég er handviss um að verkefnið verði börnum og aðstandendum mikil ánægju blessun og til sóma fyrir þjóðkirkjunnar og N4," segir Pétur.