,,Fylgist vel með veðurspám og takið mark á þeim“
Fyrst gul en svo appelsínugul viðvörun, ófærð á fjallvegum, slydda jafnvel snjókoma í byggð er það sem veðurspár boða. Það verður kalt og risjótt veður út vikuna.
Vefurinn náði tali af okkar manni á Veðurstofu íslands Óla Þór Árnassyni og við báðum hann um að segja okkur af veðurútlitinu svona frá fyrstu hendi.
,,Nú á næstu klukkustundum fer veður versnandi um landið norðanvert. Bæði eykst vindur og ofankoma. Almennt verður rigning á láglendi en sums staðar slydda. Ofan u.þ.b. 200 m.y.h (meturum yfir hafi) verður úrkoman líklegast snjókoma.
Að næturlagi lækkar þessi lína um 50-100 metra svo krapi getur myndast á láglendi.
Verst verður veðrið á mið-Norðurlandi frá og með í kvöld og út morgundaginn, þriðjudag. Reikna má með að flestir fjallvegir verði mjög erfiðir yfirferðar, ekki síst þar sem langflestir bílar eru ekki búnir til vetraraksturs.
Þetta veðrakerfi færist hægt til austurs seint á morgun og aðfararnótt miðvikudags og er einna helst að sjá að norðausturhornið fá enn einhverja ofankomu á miðvikudag en í mun minna mæli en það sem kemur í nótt og á morgun.“
Sérðu veðrið hafa áhrif á innanlandsflug? ,,Mögulega að einhverju leiti, þá helst fyrripartinn á morgun. Gæti alveg séð síðustu vél á morgun fara, jafnvel seinnipartsvélina líka. Ekki viss með ferðirnar þar á undan."
Veðurstofan hefur sett út gular og appelsínugular veðurviðvaranir og ætti fólk að annað hvort að flýta för milli landahluta ef kostur er á en annars að bíða eftir að veðrið sé gengið yfir og færð aftur kominn í rétt horf.
,,Fylgist vel með veðurspám og takið mark á þeim“ segir Óli Þór Árnason að endingu.
Óli Þór Árnason veðurfræðingur