FVSA - Íbúð á Spáni í boði næsta sumar

Íbúðin á Spáni er í Villa Martin hverfinu á Costa Blanca, í tæplega klukkutíma akstursfjarlægð frá A…
Íbúðin á Spáni er í Villa Martin hverfinu á Costa Blanca, í tæplega klukkutíma akstursfjarlægð frá Alicante. Myndir FVSA

Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni, FVSA auglýsti nýlega orlofsíbúð á Spáni fyrir sumarið 2024 og er hún viðbót við aðra orlofskosti félagsins. „Það er ánægjulegt að geta boðið upp á þennan möguleika fyrir næsta sumar, enda markmið okkar að reyna að svara eftirspurn félagsfólks eins og hægt er“ segir Eiður Stefánsson, formaður FVSA.

 Eiður Stefánsson, formaður FVSA

Íbúðin á Spáni er í Villa Martin hverfinu á Costa Blanca, í tæplega klukkutíma akstursfjarlægð frá Alicante. Hún rúmar 6 manns í gistingu, er á jarðhæð í fjölskylduvænum, afgirtum íbúðakjarna með flottri útiaðstöðu og sameiginlegu, niðurgröfnu sundlaugasvæði. „Þetta er frumraun, að bjóða upp á íbúð erlendis. Fyrirvarinn er eðlilega lengri og því opnum við fyrir bókanir kl. 12 mánudaginn 16. október og gildir þá fyrstur bókar, fyrstur fær. Það er hagstætt verð á vikuleigu og því vonumst við til að þetta nýtist vel“ upplýsir Eiður.

FVSA á sjö íbúðir í Reykjavík, þrjú sumarhús á Illugastöðum og eitt í Vaglaskógi. Síðast liðið vor var auk þess vígt nýtt sumarhús í Húsafelli og er það jafnframt fyrsta húsið þar sem gæludýr eru leyfð. Yfir sumartímann framleigir félagið að auki þrjú sumarhús til síns félagsfólks og er íbúðin á Spáni viðbót við það.

Húsafell nýtt hús FVSA  þar sem gæludyr eru velkominn er hið glæsilegasta.

 Mikil ánægja með orlofshúsin

Orlofshúsin innanlands fara í hefðbundna úthlutun eftir áramót fyrir sumarið 2024. „Það er mikil ánægja með orlofshúsin sem ég tel að stafi aðallega af tvennu; góðu viðhaldi og góðri umgengni félagsfólks. Hið síðara er þakkarvert, enda orlofshúsin eign félagsfólks og öllum í hag að vel sé farið með eignir þess. Nýting orlofshúsanna er góð, ekki síður yfir vetrartímann, og spilar þar staðsetning og aðbúnaður allur stóran þátt“ segir Eiður að lokum.

Félagsfólk getur kynnt sér úthlutun orlofshúsa og upplýsingar um íbúðina á Spáni inni á vef félagsins.

 

Nýjast