Frumskógur í stofunni
Eins og komið hefur fram í fyrri þáttum af Með mold undir nöglunum er ræktun pottablóma mitt helsta áhugamál í dag; og í rauninni allt sem viðkemur ræktun. Ég hef alið með mér þann draum lengi að vera með sjálfbært heimili er viðkemur grænmeti og ávöxtum. Markmiðið er að rækta allt mitt grænmeti sjálfur og jafnframt einhverjar tegundir af berjum. Nú er ég líka að fara flytja og á nýja heimilinu verður gróðurhús og berjagarðar. Ég gæti ekki hlakkað meira til.
SJÁ EINNIG: HÚN ER GEFIN FYRIR DRAMA
Í dag er heimilið undirlagt af pottablómum og gleðin sem fylgir því er ómælanleg. Þetta áhugamál mitt fór þó af stað fyrir alvöru með matjurtarækt. Ég hef samt alltaf viljað vera með eitthvað lifandi í kringum mig, a.m.k. 1-2 pottaplöntur og undanfarin sumur hef ég verið með lítilsháttar af spínati og klettasalati. Sumarið 2019 bætti ég svo við tegundum, þar á meðal ræktaði ég frá fræum nokkur cayenne pipar tré. Flest þeirra gaf ég í afmælisgjafir þegar þau voru komin vel á legg enda vart hægt að hugsa sér fallegri tækifærisgjafir.
Öfgarnar tóku við
Síðasta sumar fóru öfgarnar að láta á sér kræla. Ég byrjaði í kringum fyrstu góðu sólardaganna í febrúar að setja niður fræ og fyrr en varði var ég kominn með ágætis salatgarð í stofugluggann. Ég gerði líka tilraunir með fleiri tegundir af chilly plöntum, held að ég hafi komið um 20 plöntum á legg; cayenne og hot bell pepper. Þá setti ég líka niður heilan helling af fræum úr kokteiltómötunum frá Hveravöllum enda finnst mér þeir vera bestu tómatarnir á markaðnum. Væntingar mínar voru ekki háar en fræin skiluðu sér í svakalegum plöntum. Heimilið leit út eins og frumskógur seinnipart sumars þegar tómataplönturnar voru orðnar mannhæðarháar. Þetta var gríðarlega gaman en lærdómurinn er engu að síður sá að tómataplöntur í fleirtölu henta ekki sérstaklega vel sem stofuplanta. Mínar gáfu samt nokkra afskaplega gómsæta tómata.
Chilly tréin döfnuðu líka mjög vel framan af og Cayenne plönturnar urðu mjög háar. Þó fékk ég einhverja óværu í Cayenne plöturnar að lokum og grisjaði þær. Hot bell pepper plönturnar döfnuðu hins vegar mjög vel og ég uppskar mikið af heitum ávöxtum. Ég hélt síðan eftir tveim trjám og hef haldið í þeim lífinu í vetur. Þær eru allar að taka við sér með hækkandi sól og ég hef vart undan að klippa af þeim blómin. Ég stýri plöntunni nefnilega þannig að ég leyfi henni ekki að blómstra fyrr en síðsumars svo orkan fari öll í vöxt nýrra blaða og greina. Fyrir vikið fæ ég sterkari plöntu sem framleiðir meira af ávöxtum.
Ég mæli sterklega með hvers konar matjurtarækt. Hún er mjög gefandi og meira að segja nokkuð auðveld. Hér koma nokkur ráð.
Tómatar:
Eins og ég sagði náði ég mér í fræ úr kokteil tómötunum frá Hveravöllum. Ég skolaði þau lítillega og þerraði svo á eldhúspappír. Síðan setti ég fræin ofan á góða sáðmold í sáðbakka og stráði örfínu lagi af mold yfir. Vökvaði svo vel en varlega og setti glært lokið yfir. Sáðbakkann setti ég svo inn í glerskáp með ljósi og þegar fræin voru farin að spíra lét ég ljósið loga á þeim í a.m.k. 12 tíma á dag. Þegar plönturnar voru orðnar nógu stórar fyrir fyrstu umpottun færði ég þær út í glugga.
Tómataplöntur vilja mikla birtu og því eyddi ég talverðum tíma í að elta sólina framan af sumri og færði plönturnar á milli glugga eftir því hvar sólin skein. Að lokum urðu þær þó svo stórar að erfitt var að flytja þær á milli.
Tómataplöntur þurfa líka mikið vatn og ég vökvaði a.m.k einu sinni á dag og úðaði þær. Muna að nota volgt vatn og ágætt að gefa daufa blöndu af Grænu þrumunni einu sinni í viku á meðan plantan er í örustum vexti.
Svo var ég ófeiminn við að klippa plönturnar til. Það er alveg óhætt að klippa mikið af blöðum og greinum af henni á meðan hún er að ná æskilegri stærð.
Ein planta er nóg
Ég mæli svo sannarlega með því að prófa að rækta eins og eina tómataplöntu í potti inn í stofu ef hægt er að tryggja henni nægt ljós, það er bara gaman. Ég mæli síður með að koma 15 plöntum á legg eins og ég gerði í stofunni hjá mér. Það er hreinlega allt of mikið. Bæði tómata- og chilly plönturnar þurfti ég að umpotta nokkrum sinnum yfir sumarið. Þá er mikilvægt að umpotta bara um eina stærð í hvert sinn. Ég gerði þau mistök með fallegustu og stærstu piparplöntuna mína að setja hana í allt of stóran pott. Fyrir vikið eyddi hún allri orkunni í rótarvöxt það sem eftir lifði sumars. Hún náði heldur ekki að vinna á rakanum í moldinni og að lokum játaði ég mig sigraðann og henti henni; enda átti ég s.s. nóg af plöntum.
Ég vek athygli á því að í þessum þætti skrifa ég sem algjör áhugamaður. Ég miðla reynslu minni, tilraunum en ég ábyrgist ekki að mínar aðferðir séu bestar. Ég er sífellt að gera mistök en af þeim læri ég mest.
Gleðilegt plöntusumar!
Ábendingum og hugmyndum má koma á framfæri á netfangið: egillpall@vikubladid.is