Krónan eykur þjónustu á Norðurlandi eystra

Bjarki Kristjánsson, verslunarstjóri Krónunnar á Akureyri og Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjó…
Bjarki Kristjánsson, verslunarstjóri Krónunnar á Akureyri og Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar

Húsvíkingar bætast nú við hóp Norðlendinga sem geta pantað matinn sinn heim í Snjallverslun Krónunnar. Opnað verður fyrir pantanir á Húsavík í dag, fimmtudag og munu fyrstu pantanir berast bæjarbúum mánudaginn 15. janúar. Mikil eftirspurn hefur verið eftir þjónustunni á svæðinu og nú þegar hefur Krónan hafið heimsendingar á Akureyri, Dalvík, Ólafsfjörð og Siglufjörð.

 Krónan hefur síðastliðin ár unnið að því að auka við og efla dreifingu Snjallverslunar á landsbyggðinni og hefur nú Norðurland eystra bæst í hóp þeirra svæða sem Krónan þjónustar.

 „Upplifun viðskiptavina hefur breyst mikið á aðeins fáeinum árum með tilkomu fleiri valkosta þegar kemur að því að versla í matinn. Með nýrri tækni getum við hugsað dæmið upp á nýtt og þjónustað landsbyggðina betur með bættu aðgengi að fjölbreyttu vöruúrvali á lágu verði, óháð staðsetningu viðskiptavina. Við erum spennt að sjá hvernig Húsvíkingar taka á móti okkur en vel hefur verið tekið í heimsendingar af íbúum í þeim bæjarfélögum sem nú þegar geta nýtt þjónustuna. Þetta er mikill ávinningur fyrir Krónuna og ekki síst viðskiptavini og stefnum við á enn frekari dreifingu á landsbyggðinni í náinni framtíð,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.

 Allar pantanir verða teknar saman í verslun Krónunnar á Akureyri og hefur undirbúningur og ferlið í heild gengið afar vel að sögn Bjarka Kristjánssonar, verslunarstjóra Krónunnar á Akureyri.

 „Það ríkir mikil spenna meðal íbúa þessa svæðis að fá loks að nýta sér heimsendingu í gegnum Snjallverslun Krónunnar enda hefur lengi verið beðið eftir þessari þjónustu í nágrenni Akureyrar. Við vonum að eftirspurnin verði góð en hún hefur farið fram úr okkar björtustu vonum á þeim svæðum sem Krónan hefur nú þegar hafið heimsendingar, á Akureyri, Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði. Þjónustunnar er beðið með eftirvæntingu á Húsavík og verður spennandi að sjá hvernig viðtökurnar verða,“ segir Bjarki.

Viðskiptavinir á Norðurlandi eystra og landinu öllu fá fría heimsendingu ef pantað er fyrir 18 þúsund krónur eða meira í Snjallverslun. Hægt er að nálgast Snjallverslun Krónunnar í appi Krónunnar eða á kronan.is.

Nýjast