Frelsi að búa úti á landi

Baldur Baldvinsson og Vilhjálmur Sigmundsson. Myndir/epe
Baldur Baldvinsson og Vilhjálmur Sigmundsson. Myndir/epe

Það er líklega fátt jafn dýrmætt samfélagi eins og Húsavík en þegar ungt fólk snýr aftur heim með fjölskyldur sínar eftir að hafa flust á brott til að sinna námi og öðrum störfum.

Baldur Baldvinsson er dæmi um þetta. Blaðamaður heimsótti Baldur á vinnustað hans hjá Eimskip á Húsavík og tók við hann stutt spjall.

Baldur Baldvinsson

Baldur er fæddur og uppalinn Húsavíkingur en hann fluttist til Reykjavíkur með Nönnu Möller konunni sinni árið 2010. Nanna er ættuð héðan en hefur búið í Reykjavík alla sína tíð. „Hún var í skóla og útskrifaðist sem kennari og vann sem slíkur í eitt ár. Svo fluttum við heim,“ segir Baldur en Nanna, kona hans hefur kennt við Borgarhólsskóla frá því þau fluttu til Húsavíkur árið 2019.

Baldur segir að það hafi lengi togað í sig að snúa aftur á æskuslóðirnar og viðurkennir að hann hafi þrýst á að flytja aftur heim. „Mig langaði til að leyfa börnunum okkar að kynnast frelsinu sem felst í því að búa á litlum stað úti á landi. Auk þess á ég einn strák frá fyrra sambandi sem býr hér á Húsavík og ég vildi vera nær honum. Það var svona sterkasta aðdráttaraflið,“ útskýrir hann.

Ánægður hjá Eimskip

Baldur hóf störf hjá Eimskip í Reykjavík þegar hann flutti suður og hefur unnið hjá fyrirtækinu síðan. Þegar hann flutti til baka til Húsavíkur fékk hann flutning innan fyrirtækisins og er í dag akstursverkstjóri á starfstöð Eimskips á Húsavík. Baldur segist vera afar ánægður hjá Eimskip og bendir á að það sé allt annað en sjálfsagt að fyrirtækið haldi úti jafn öflugri starfsemi á Húsavík og raun ber vitni. Fyrirtækið er með um 20 stöðugildi á Húsavík. „Það eru flestir búnir að vinna hér í 20-30 ár sumir reyndar með hléum, það segir sína sögu um vinnustaðinn. Auðvitað eru stundum langir vinnudagar en það er gott að vinna hérna. Vinnan er voða svipuð frá degi til dags en samt er alltaf eitthvað nýtt og sífelldar áskoranir,“ segir hann.

Baldur segir að heimsfaraldurinn hafi vissulega haft áhrif á daglegt líf og ekki síst vinnuna. „Það voru auðvitað allir mjög hræddir um að það þyrfti að draga saman en raunin hefur orðið önnur. Flutningar hafa frekar aukist en hitt,“ segir hann og bætir við að umsvifin séu mikil. „Við sjáum um keyrsluna héðan og austur á Vopnafjörð. Við erum með marga stóra kúnna á öllu þessu svæði.“

Baldur dregur ekkert undan því að lífið á Húsavík sé gott og að hér sé gott að ala upp börn. „Fjölskyldunni líður ótrúlega vel. Hér er allt annað „tempó" og daglegar athafnir mun auðveldari,“ segir hann og nefnir sérstaklega frelsið sem börnin búa við. „Við eigum t.d. stelpu sem var að klára 1. bekk og maður sér hana varla allan daginn, hún er úti að leika sér. Svo ekki sé minnst á allan aksturinn sem sparast miðað við í Reykjavík,“ segir Baldur.

Stór starfsstöð á Húsavík

Eimskip rekur eina af sínum stærstu starfstöðvum á Húsavík en umsvif jukust mikið eftir að PCC hóf starfsemi á Bakka. Vilhjálmur Sigmundsson svæðisstjóri Eimskips á Norðausturlandi segir í samtali við Vikublaðið að þrátt fyrir umsvifin geri fólk sér almennt ekki grein fyrir hvað þau eru mikil. „Fólk sér okkur og þetta stóra athafnasvæði en veit kannski ekki hvað við erum að gera. Hvað þetta er í rauninni viðtækt og hvaða starfsemi er hérna. Við erum að þjónusta allt Norðaustur hornið með tvo áætlunarbíla alla virka daga til og frá Akureyri og til og frá Reykjavík. Við erum líka tengd við 80 áfangastaði Eimskips hér á landi,“ útskýrir Vilhjálmur en alls eru sex flutningabílar staðsettir á starfsstöðinni.

Villi

„Við erum með 20 stöðugildi, rekum vöruhús og akstursdeild. Svo auðvitað eftir að PCC kom þá erum við með hafnarstarfsemi sem er gríðarlega umfangsmikil því við eigum allan tækjakostinn sjálfir,“ segir Vilhjálmur og bætir við að tækjakosturinn sé mikið til sérhannaður fyrir starfsemina á Húsavík. „Það er alls ekki sjálfgefið að Eimskip færi út í svona stóra fjárfestingu í svona litlu bæjarfélagi. Það voru ekki búnar að vera siglingar hingað í mörg ár þar til PCC varð að veruleika þannig að sú starfsemi skiptir okkur gríðarlegu máli. En það eru líka fleiri mikilvægir kúnnar eins og GPG sem eru með starfstöðvar á Húsavík, Raufarhöfn og Bakkafirði. Afleiddu áhrifin eru líka gríðarleg enda skiptir þessi hafnarstarfsemi miklu máli fyrir inn-og útflytjendur; að geta skipað út beint frá svæðinu. Það er alls ekki sjálfgefið að hafa svona öflugt flutninganet á hlaðinu heima.“

Breytt neyslumynstur í faraldrinum

Heimsfaraldurinn hefur kallað á miklar áskoranir í daglega rekstrinum og segir Vilhjálmur að starfsfólkið eigi heiður skilið fyrir það hvernig til hefur tekist. „Eimskip gaf strax út mjög leiðandi vinnureglur fyrir starfsmenn og það hefur tekist mjög vel að fara eftir þeim þrátt fyrir krefjandi aðstæður. Við vorum með starfsmenn sem voru að fara í heimsóknir í flest fyrirtæki á svæðinu á hverjum degi og við gátum ekki farið að gefa neinn afslátt af því að afhenda vörurnar,“ segir hann og bætir við að íslenska ferðasumarið á síðasta ári hafi haft í för með sér annað neyslumynstur en þegar erlendir ferðamenn voru í meirihluta.

„Annað sem breyttist er að í stað þess að ferðast þá var fólk að fara mikið í framkvæmdir. Í kerfunum okkar var stóraukning í reiðhjólum, heitum pottum, timbri og þess háttar. Innanlandsflutningarnir voru í sókn á þessum tíma og mikil breyting á samsetningu á vörunni,“ útskýrir Vilhjálmur og bætir við að hann sé þakklátur fyrir hvað fólk sé að leita mikið til þeirra. „Við erum með hátt þjónustustig og finnum fyrir miklu þakklæti fyrir það.“

Að lokum segir Vilhjálmur frá því að í kjarna starfsliðsins sé fólk með áratuga reynslu. „Bílstjórar með fjölmarga kílómetra á bakinu og hér er líka starfsfólk sem er búið að vera í vöruhúsinu í 20, jafnvel yfir 30 ár. Þar erum við með gríðarlega mikilvæga reynslu og þekkingu,“ segir Vilhjálmur sem sjálfur hefur starfað fyrir Eimskip í 16 ár.

Nýjast