Framtíðarsýn í fræðslu- og dagvistarmálum á Akureyri

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Jóhannes Gunnar Bjarnason
Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Jóhannes Gunnar Bjarnason

Framsóknarmenn á Akureyri leggja sérstaka áherslu á fræðslu- og dagvistarmál í sinni stefnu og mikilvægi þess að huga jöfnum höndum að velferð barna og frábæru starfsfólki skólanna. Margt hefur áunnist en það er alltaf hægt að gera betur.  Við viljum skoða sérstaklega starfsaðstæður leik- og grunnskólakennara, innleiða snemmbæra íhlutun sem fyrirbyggjandi forvörn við vaxandi kvíða og þunglyndi barna, verða leiðandi í fjölbreyttu skólastarfi og tryggja öllum börnum á Akureyri vistunarpláss.

Aukum veg og virðingu leik- og grunnskólakennara

Af öðrum starfsmönnum Akureyrarbæjar ólöstuðum þá gegna leik- og grunnskólakennarar mikilvægu hlutverki í að byggja upp Akureyri til framtíðar. Framsóknarmenn vilja vinna að því að gera skólana að eftirsóknarverðum vinnustað fyrir kennara, sem því miður leita nú meira en oft áður í önnur störf.  Aðgerða er þörf og í samstarfi við menntamálaráðherra okkar, Lilju Alfreðsdóttur, sjáum við vonandi fram á bjartari tíma.

Það þarf að samræma tækjakost allra skóla og íþróttamannvirkja, skoða hvort ekki megi finna samlegðaráhrif milli skóla svo tími kennara nýtist betur en um leið styrkja þá skóla sem vilja auka vald sitt og sjálfstæði. Það þarf að tryggja viðeigandi ráðgjöf til handa kennurum eftir þörfum þeirra og minnka álag á þeim með því að ráða sálfræðinga, fleiri sérkennara og annað fagmenntað fólk inn í skólana. Leggjum niður viðbótarskráningu á vinnustund og stefnum að sveigjanlegum og fjölskylduvænum vinnutíma.

Við leggjum einnig áherslu á að bæta starfsaðstæður barna og starfsmanna í leikskólum og fækka börnum inn á deildum. Auka þarf stuðningskennslu og stytta greiningarferli hjá börnum í leikskólum og á yngsta stigi grunnskóla.

Snemmbær íhlutun

Rannsóknir sína að kvíði og þunglyndi barna hefur aukist og neysla er vaxandi vandamál. Ráðherra Framsóknarmanna, Ásmundur Einar Daðason, hefur talað fyrir því að aðgerða sé þörf og horfir sérstaklega til snemmbærar íhlutunar, það þarf að bregðast fyrr við en áður og ná til yngri barna.

Áreitið í nútímasamfélagi er gífurlegt og sú veröld sem börnin okkar búa við í tækniheiminum er oft á tíðum óhugnanleg og markaðsáreitið varasamt börnum. Það þarf að fræða börnin um kosti og galla þessarar tækni, um muninn á net- og raunsjálfi, kenna þeim að þekkja duldar auglýsingar, þjálfa þau í félagslegum samskiptum og vinna með styrkleika þeirra. Setjum börnin okkar í forgang.

Spennandi tímar framundan

Fjórða iðnbyltingin býður upp á heilmörg tækifæri fyrir börnin okkar, tækifæri sem við gerum okkur ekki í hugarlund í dag.  Við þurfum að búa okkur undir að mörg þeirra starfa sem við vinnum í dag verða ekki til í náinni framtíð. Við verðum að haga menntun barnanna okkar eftir því. Skapandi störfum og störfum tengd tækni og nýsköpun mun fjölga og þess vegna er mikilvægt að sinna þeim þáttum vel í skólastarfinu og auka samvinnu enn frekar við framhaldsskóla, menntamálaráðuneyti og atvinnulíf með sérstakri áherslu á verk- og tækninám.

Umbætur í dagvistarmálum

Til að auðvelda foreldrum þátttöku í atvinnulífinu þarf að tryggja úrræði eftir að fæðingaorlofi lýkur og leikskólaganga hefst. Við viljum leikskóla frá 12 mánaða aldri í samræmi við fyrirhugaða lengingu fæðingarorlofs og jafna kostnað við dagsvistun barna á leikskólaaldri til að mismuna ekki foreldrum eftir því hvenær á árinu barnið er fætt. Það þarf að móta framtíðarsýn fyrir uppbyggingu leikskólamannvirkja í tengslum við ungbarnadeildir og fækkun barna inni á deildum.

Þetta teljum við raunhæfan kost þegar nýr leikskóli við Glerárskóla er risinn. Einnig viljum við halda þeim möguleika opnum að halda áfram starfsemi í Pálmholti í einhverri mynd eftir að nýr leikskóli opnar árið 2020. Í vetur kom upp erfið, en jafnframt ánægjuleg, staða þegar 40 börn fluttu óvænt í bæinn og verkefni sem þurfi að leysa. Nú eru öll börn fædd í janúar, febrúar og mars á síðasta ári komin með pláss á leikskóla í haust sem ber að fagna.

-Sunna Hlín Jóhannesdóttir framhaldsskólakennari 5. sæti og Jóhannes Gunnar Bjarnason grunnskólakennari 6. Sæti. XB Akureyri til framtíðar






Nýjast