Framsýnarfélagar telja hag sínum best borgið austan Vaðlaheiðar
![Félagsmenn í Framsýn telja ekki tímabært að sameina öll stéttarfélög á Norðurlandi í eitt 18 þúsund …](/static/news/lg/framsyn-fundur.jpg)
Framsýn stéttarfélag hefur tekið til umfjöllunar hugmyndir Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri um sameiningu stéttarfélaga á Norðurlandi í eitt 18 þúsund manna stéttarfélag. Hugmyndirnar eru settar fram í bréfi til aðildarfélaga Alþýðusambands Norðurlands í nóvember í fyrra. Framsýn hefur fjallað ítarlega um erindið á fundum í félaginu.
Niðurstaðan er sú að ekki sé tímabært að sameinast öðrum stéttarfélögum en þeim sem þegar eru í góðu samstarfi við félagið; stéttarfélögin Þingiðn, Starfsmannafélag Húsavíkur og Verkalýðsfélag Þórshafnar sem öll eiga aðild að sameiginlegri skrifstofu á Húsavík, auk þess að vera í góðu samstarfi um málefni er varða starfsemi stéttarfélaga s.s. hvað varðar orlofskosti fyrir félagsmenn. Framsýn er opið fyrir því að hefja viðræður um sameiningu þessara félaga enda sé gagnkvæmur áhugi fyrir slíkum viðræðum, það er stéttarfélaga sem starfa í Þingeyjarsýslum.
Hugnast ekki að tapa sjálfstæðinu
Framsýn er félagslega- og fjárhagslega mjög sterkt stéttarfélag sem hefur um tíðin haft burði til að veita félagsmönnum góða þjónustu og gott aðgengi að styrkjum s.s. náms- og styrkjum vegna veikinda og fyrirbyggjandi aðgerða í formi sjúkradagpeninga. Aðhald í rekstri hefur skilað þessum árangri. Þá hefur félagið látið sig byggða- og atvinnumál varða með það að markmiði að efla svæðið enn frekar félagsmönnum og öðrum íbúum til hagsbóta.
Greinilegt er að félagsmenn kunna mjög vel að meta starfsemi félagsins sem skoðanakannanir sem og ásókn í félagið staðfesta. Fyrir liggur að félagsmönnum Framsýnar hugnast ekki að tapa sjálfstæði félagsins og því sem það stendur fyrir í dag. Hafa þeir komið þessum skilaboðum skýrt á framfæri við forsvarsmenn félagsins.