Framsýn Vill aukinn byggðakvóta til Raufarhafnar
Framsýn stéttarfélag hefur lengi haft áhyggjur af atvinnuástandinu á Raufarhöfn enda atvinnulífið einhæft og þá hefur laxeldi á landi eða sjó hvað þá ferðaþjónusta eða önnur atvinnustarfsemi en fiskvinnsla ekki náð sér á strik í byggðarlaginu. Það er ólíkt mörgum minni sjávarplássum í öðrum landsfjórðungum s.s. á Vestfjörðum og/eða á Austurlandi. Fólksfækkun hefur verið viðvarandi vandamál á síðustu áratugum á norðausturhorninu sem tengist ekki síst einhæfu atvinnulífi.
Sveitarfélögum hefur verið tilkynnt um byggðakvóta á fiskveiðiárinu og fær Raufarhöfn óbreytta úthlutun á milli ára eða 164 tonn. Eðlilega eru heimamenn á Raufarhöfn ákaflega óhressir með sinn hlut varðandi byggðakvótann og benda á máli sínu til stuðnings að fiskveiðar/vinnsla sé undirstaða atvinnu á staðnum. Úthlutun þess sértæka byggðakvóta sem komið hefur í hlut Raufarhafnar á undanförnum árum í gegnum „Brothættar byggðir“ hafi dregist verulega saman, en sértækum byggðakvóta er þó úthlutað til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Staðan var nýlega til umræðu innan Framsýnar, það er eftir að sjómenn á Raufarhöfn höfðu samband við félagið með ósk um að félagið tæki úthlutun á byggðakvóta til skoðunar. Í kjölfarið var ákveðið að álykta um stöðuna þar sem áhyggjum félagsins er lýst. Jafnframt hefur verið óskað eftir formlegum fundi með atvinnuvegaráðherra til að fylgja málinu eftir. Þess er vænst að ráðherra svari kallinu á næstu dögum eða vikum.
Ályktun
-Aukinn byggðakvóta til Raufarhafnar-
„Framsýn stéttarfélag fer fram á hámarksúthlutun fyrir Raufarhöfn hvað varðar úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2024/2025. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum fær Raufarhöfn óbreytta úthlutun á milli ára eða 164 tonn, en hámarksúthlutun almenna byggðakvótans til einstaka byggðarlaga er hins vegar 285 tonn.
Það ætti enginn að þurfa að efast um mikilvægi þess fyrir íbúa Raufarhafnar að fá aukna hlutdeild í byggðakvótanum. Efnahagslegur ávinningur fyrir litlar sjávarbyggðir með úthlutun byggðakvóta, bæði úr almenna og sértæka kerfinu liggur fyrir. Byggðakvóta er ætlað að stuðla að jöfnuði og jafnrétti milli sveitarfélaga á Íslandi, þaðan sem sjávarútvegur er stundaður.
Að mati Framsýnar stéttarfélags er aukinn byggðakvóti ein besta byggðaaðgerðin fyrir Raufarhöfn sem lengi hefur verið í vörn og ekki getað treyst á fjölbreytt atvinnulíf, fiskeldi eða vaxandi ferðaþjónustu líkt og þekkist víða í hinum dreifðu byggðum landsins.
Til upprifjunar má geta þess að Raufarhöfn var eitt fyrsta byggðarlagið á Íslandi sem fór í verkefni Byggðastofnunar „Brothættar byggðir.“ Byggðakvótinn sem veittur var til Raufarhafnar í gegnum verkefnið styður við markmið um úthlutun byggðakvóta til sjávarbyggða sem eru í vörn og þar sem fólksfækkun hefur verið viðvarandi vandamál. Því miður hefur kvótinn sem Raufarhöfn hefur fengið í gegnum verkefni sem þetta dregist verulega saman sem eru mikil vonbrigði.
Núverandi ríkisstjórn hefur lýst því yfir að hún vilji hleypa nýju lífi í hafnir landsins með því að efla strandveiðar. Það hlýtur einnig að eiga við um sjávarpláss sem treysta á byggðakvóta. Þar er þörfin mest að mati Framsýnar stéttarfélags, það er að tryggja þeim sem eiga allt sitt undir því að byggð haldist á stað eins og Raufarhöfn auknar aflaheimildir í formi byggðakvóta, landverkafólki og sjómönnum til hagsbóta.“
Frá þessu segir á www.framsýn.is