Framsýn biðlar til þingmanna um stuðning við áframhaldandi áætlunarflugi til Húsavíkur

Aðalsteinn Árni Baldursson og Svandís Svavarsdóttir að loknum fundi
Aðalsteinn Árni Baldursson og Svandís Svavarsdóttir að loknum fundi

„Áhugaleysi þingmanna kjördæmisins er algjört. Það er að okkar mati ámælisvert. Við gerum ráð fyrir að áhuginn verði meiri þegar líður að vori og kosningum, þá má búast við að sjá þetta fólk hér á ferðinni,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar.

Hann vísar í bréf sem hann sendir þingmönnum í Norðausturkjördæmi og formanni fjárlaganefndar, þar sem kallað var eftir afstöðu þingmanna til áætlunarflugs milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Enginn svör hafa borist. Framsýn hefur lengi barist fyrir áætlunarflugi á milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Flugið lagðist af 1. apríl síðastliðinn þar sem ríkisstyrkur var ekki lengur til staðar.

Hann er forsenda þess að halda úti flugi milli þessar áfangastaða og segir Aðalsteinn að fyrir slíkum styrkjum sé fordæmi frá öðrum áfangastöðum sem flogið er til, m.a. Hafnar í Hornafirði.

Höfum áhyggjur og höldum að tilboðið verði dregið til baka

Vegagerðin hyggst bjóða upp á ríkisstyrkt áætlunarflug þrjár mánuði á ári, tímabilið desember til loka febrúar. Flugið hefur verið boðið út og tilboð liggur fyrir. „Þrátt fyrir þetta tilboð hefur ekki verið gengið til samninga við það flugfélag sem bauð í leiðina. Við vitum ekki hvað tefur en höfum miklar áhyggjur af því að draga eigi þetta útboð til baka,“ segir hann.

Aðalsteinn fór ásamt Katrínu Sigurjónsdóttur sveitarstjóra á fund Svandísar Svavarsdóttur innviðaráðaherra þar sem mikilvægi flugsamgangna milli Húsavíkur og Reykjavíkur voru til umræðu og nauðsyn þess að koma þeim á aftur. Aðalsteinn segir að horft sé til þess að flugið verði ríkisstyrkt í 5 til 6 mánuði yfir árið en það rekið á markaðslegum forsendum frá vori og fram á haust.

„Þetta var góður fundur og ráðherrann hafði skilning á því hversu mikilvægt það er að halda þessu flugi áfram, m.a. út frá öryggissjónarmiðum,“ segir hann.

Nýjast