Framhaldið er í höndum kjósenda

Ingibjörg Isaksen þingflokksformaður  Fraamsóknarflokksins
Ingibjörg Isaksen þingflokksformaður Fraamsóknarflokksins

Ingibjörg Ólöf Isaksen sækist eftir að skipa áfram fyrsta sætið á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.  Hún segir stjórnarslitin síðasta sunnudag hafa komið á óvart því til þessa hafi ríkt trú á að hægt væri að ná lengra í mikilvægum málum.

Ingibjörg varð oddviti flokksins fyrir kosningarnar 2021 og í kjölfar þeirra fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis. Hún hefur verið þingflokksformaður á kjörtímabilinu.

Líneik Anna Sævarsdóttir frá Fáskrúðsfirði var þá í öðru sætinu. Líneik Anna tilkynnti í gær að hún sæktist ekki eftir endurkjöri. „Það verður eftirsjá af Líneik því hún hefur verið virkilega góður og traustur samstarfsmaður. Hún er alls staðar vel liðin: vinnusöm, dugleg og traust. Ég veit hún mun áfram fylgja flokknum og við vinkonurnar munum halda áfram sambandi.“

Taldi hægt að ná lengra

Aðspurð segir Ingibjörg að ákvörðun Sjálfstæðisflokksins um að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu við Framsóknarflokk og Vinstrihreyfinguna – grænt framboð hafi komið á óvart.
„Við töldum á þessum tímapunkti að það væru tækifæri til að klára mikilvæg verkefni í til dæmis samgöngumálum og sem varða börn- og ungmenni. Það eru líka öll merki um að við séum að ná tökum á verðbólgunni sem í fyrsta sinn í þrjú ár er á leið niður.


Við töldum þess vegna möguleika á að komast á enn betri stað en það þýðir ekki að horfa um öxl heldur fram á veginn og takast á við verkefnið sem fram undan er,“ segir Ingibjörg.
Kosið verður 30. nóvember. Kannanir hafa til þessa ekki verið hliðhollar Framsóknarflokknum á landsvísu þótt staða hans í kjördæminu sé heldur betri en víða annars staðar.
„Það á margt eftir að breytast næstu daga og vikur. Við getum verið stolt af verkum okkar þetta kjörtímabil. Við höfum verið í góðu samtali við fólk og fyrirtæki í kjördæminu. Nú er að segja frá þeim verkefnum sem við höfum unnið á kjörtímabilinu, fyrir hvað við stöndum og hvaða verkefni við sjáum framundan. Við setjum hausinn undir okkur og göngum full tilhlökkunar til samtals við kjósendur.“

Segir mikið um formanninn

Óvænt tíðindi bárust úr flokknum í dag um að formaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafi ákveðið að taka annað sætið í Suðurkjördæmi en í því fyrsta verði Halla Hrund Logadóttir, fyrrum forsetaframbjóðandi og orkumálastjóri.

„Þetta er mjög ánægjulegt. Þetta segir mikið um hugsun, karakter og styrk formanns okkar sem leiðtoga. Hann hefur alltaf trú á okkur í flokknum og er til í að víkja fyrir hagsmunum annarra og flokksins.“
Ingibjörg lætur ekkert uppi um ósk sína um næstu ríkisstjórn. „Nú er þetta í höndum kjósenda og við tökum næstu skref út frá því.“

 

Nýjast