Frá Orku náttúrunnar. Gamla hraðhleðslustöðin við Glerártorg uppfærð á árinu

Uppfærð hleðslustöð ON við Hof á Akureyri er sérhönnuð með aðgengismál í huga  Mynd Jóhanna Rakel
Uppfærð hleðslustöð ON við Hof á Akureyri er sérhönnuð með aðgengismál í huga Mynd Jóhanna Rakel

Á samfélagsmiðlum í morgun hefur verið bent á afleitt aðgengi að hleðslustöð ON sem stendur við Glerártorg á Akureyri. Orka náttúrunnar tekur heilshugar undir að aðgengi að umræddri stöð er langt frá því að vera boðlegt hreyfihömluðum og stenst alls ekki þær kröfur sem Orka náttúrunnar setur sér við uppsetningu hleðslustöðva í dag.

 Umrædd stöð, sem er á endurnýjunaráætlun ársins, er ein af allra fyrstu stöðvum ON sem settar voru upp hér á landi, árið 2016. Stöðin er svo sannarlega barn síns tíma þó hún hafi þjónað Akureyringum vel í gegnum árin. Líkt og sést á uppsetningunni var á þessum árdögum rafbílavæðingarinnar lögð meiri áhersla á árekstrarvarnir en aðgengismál. Það hefur aldeilis breyst.

 Allt frá árinu 2017 hefur Orka náttúrunnar átt í samstarfi við Sjálfsbjörgu vegna aðgengismála og árið 2021 undirrituðu samtökin og ON formlegan samstarfssamning sem miðar að því að tryggja aðgengi hreyfihamlaðra að allri þjónustu og hleðslustöðvum ON um land allt. Allar stöðvar sem við setjum upp í dag eru hannaðar með þarfir hreyfihamlaðra í huga. Það sést til dæmis á uppfærðri hleðslustöð ON við Hof á Akureyri, sem er ein sú fullkomnasta á landinu. Þar eru engar árekstrarvarnir og skjárinn er staðsettur fyrir fólk í sitjandi stöðu.

 Þegar hleðslustöðin við Glerártorg var sett upp voru hlaðanlegir rafbílar á Íslandi færri en 1.000. Nú eru þeir fleiri en 40.000. Orka náttúrunnar finnur fyrir sífellt aukinni eftirspurn og starfsfólk vinnur að því alla daga að finna nýjar staðsetningar til þess að koma upp hleðslustöðvum. Stöðin við Glerártorg verður uppfærð á þessu ári en við höfum kosið að hafa hana opna frekar en að loka henni, þrátt fyrir að hún uppfylli ekki eðlilegar kröfur um aðgengi.

Nýjast