20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Föstudagsfréttir frá Hrísey
Við hefjum föstudagsfréttir á því að minnast Árna Tryggvasonar, leikara og Hríseyings. Árni var fæddur þann 19.janúar 1924 að Víkurbakka á Árskógsströnd en flytur ungur til Hríseyjar með fjölskyldu sinni þar sem hann ólst upp. Árni lést þann 13.apríl á Eir.
Við vottum fjölskyldu Árna innilegar samúðarkveðjur. Fallinn er frá góður Hríseyjar-sonur.
Dymbilvikan og páskarnir voru fullir af lífi og hríseyskri gleði, enda margt um manninn í eyjunni í páskafríinu. Heimafólk og gestir sköpuðu góða stemningu og voru dugleg að taka þátt í öllum þeim viðburðum sem voru á dagskrá. Svo mikil var gleðin að viðburðum var bætt við með stundum litlum fyrirvara því öll vildum við halda áfram að gera dagana sem besta og skemmtilegasta. Það var einnig ánægjulegt hversu duglegir gestir voru að fylgjast með hérna á heimasíðunni sem og samfélagsmiðlum. Það er alltaf gaman þegar við erum "tögguð" á Instagram og Facebook, þið megið endilega halda áfram að vera dugleg við það!
Hríseyjarbúðarpizzur fóru vel af stað og fyrsta kvöldið runnu um 50 pizzur í gegnum ofninn! Föstudagar eru enda annálaðir pizzudagar hjá mörgum.
Páskabingó Slysavarnafélagsins var á sínum stað þann 4. aprílog var vel mætt á bæði barna og fullorðinsbingóið. Eitthvað fannst fólki heppnin óþarflega mikil á ákveðnu borði, en þá er bara að reyna á hvort heppnin dreifist ekki víðar á jólabingóinu í ár!
Kökubasar og uppboð Kvenfélags Hríseyjar var haldið á skírdag og var mæting engu minni þar en á bingó. Allur ágóði rennur til góðgerðarmála sem Kvenfélagið sinnir og tóku bjóðendur því mjög alvarlega og settu innkomumet! Gekk svo mikið á í uppboðinu að oftar en einu sinni var buðu einstaklingar á móti sjálfum sér, nágrannar tóku slaginn og börn tóku þátt í óþökk foreldra sinna. Mikið var því hlegið og haft gaman, enda leikurinn ma til þess gerður. Kvenfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn.
Föstudaginn langa var vel heppnað kökuhlaðborð á Verbúðinni 66 og síðar um kvöldið var fjölmennt á Pub Quiz-i/barsvari sem Valli eggjabóndi Sport sá um.
Ungmennafélagið Narfi var með fjöruga dagskrá alla páskana. Mæðgurnar Harpa og Hrönn sáu um badminton fyrir börn og unglinga, haldið var fjölskyldufjör fyrir alla á laugardeginum og fullorðins badminton var á sínum stað á sunnudegi. Eins og alltaf hjá UMFN var öll dagskráin fyrir öll sem í eyjunni voru stödd og endurgjaldslaus.
Karókí með Lukkukonum var haldið í Verbúðinni á laugardagskvöldi og óhætt að segja að margar faldar stjörnur eru í Hrísey. Hvort það séu söngstjörnur eða stjörnur á öðrum sviðum er svo persónulegt álit hvers og eins.
Páskadagur var fallegur og ljúfur. Hátíðarmessa var haldin í Hríseyjarkirkju, sundlaugin var opin fyrir þau sem vildu sprikla í vatninu eftir páskaeggjaátið og ilmurinn af páskasteikum lá yfir eyjunni. Hátíðarsvæðið var fullt af lífi alla páskana, enda margir sem kíktu í dagsferðir út í Hrísey, í bland við heimafólk og orlofshúsagesti.
Hrísey væri ekki söm án okkar allra, heimafólks, farfuglafólks og gesta. Takk öll fyrir að fylla samfélagið lífi og gleði á dögum sem þessum sem og alla daga.
Hverfisráð Hríseyjar boðaði til opins fundar fimmtudaginn 13 apríl þar sem umræður um hundagerði í Hrísey var á dagskrá. Við vitnum hér í fundargerð ráðsins frá fundinum; ,,Umhverfis- og mannvirkjasvið óskaði eftir áliti hverfisráðs varðandi staðsetningu á hundasvæði í Hrísey. Hverfisráð boðaði hundaeigendur og áhugafólk um málefnið á fund þar sem staðsetningar voru ræddar. Flestum hugnaðist að staðsetja hundasvæði norðan og ofan við Áhaldahúsið. Í ljósi niðurstöðu fundarins óskar hverfisráð eftir að uppsetning hundagerðis á þessu svæði verði komið í ferli."
Hríseyjarbúðin verður með pizzurnar sínar í boði í kvöld og á laugardaginn er opið á Verbúðinni 66. Veður verður milt um helgina, hiti 2-7 gráður og sólin lætur sjá sig. Það er því tilvalið að fara í göngutúr og taka stöðuna á gönguleiðunum, skella sér svo í sund að slappa af áður en látið er aðra um eldamennskuna.
Við endum föstudagsfréttir á feðgunum Árna Tryggvasyni og Erni Árnasyni, syngja saman á Hríseyjarhátíð lagið hans Lilla Klifurmús Dvel ég í Draumahöll.