20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Formaður Félags eldri borgara - Vonbrigði en við skoðum aðra möguleika
„Það eru vissulega mikil vonbrigði að Búfesti hafi neyðst til að skila lóðunum við Þursaholt. Við erum að fara yfir þá möguleika sem fyrir hendi eru eftir að ljóst er að þetta verkefni dettur upp fyrir,“ segir Karl Erlendsson formaður Félags eldri borgara á Akureyri.
Búfesti hefur skilað inn lóðum við Þursaholt 2 til 4 í nýju Holtahverfi norður, m.a. vegna nýrra lánaskilmála sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafði sett og voru þess eðlis að bróðurpartur félagsmanna féll ekki undir þau tekju- og eignamörk sem sett voru. Á lóðunum átti að reisa nokkur fjölbýli og voru tvö þeirra eyrnamerkt fólki eldra en 60 ára.
Karl segir að mikil þörf sé fyrir húsnæði fyrir þennan aldurshóp og fari síst minnkandi. „Það vantar sárlega góðar íbúðir sem henta þessum aldurshóp, við finnum vel fyrir því að eftirspurn þessa hóps eftir íbúðum er talsverður,“ segir hann.
Gera húsnæðiskönnun í næsta mánuði
Nú í marsmánuði verður gerð húsnæðikönnun meðal félagsmanna og þeir inntir eftir því hvers konar húsnæði henti þeim best þegar efri árin færist yfir. Segir Karl það mismunandi hvað henti hverjum og einum, sumir vilji kaupa, aðrir kaupa búseturétt eða leiga íbúð. Síðasti kosturinn segir hann að mörgum hugnist vel og nefnir að til sé Leigufélag aldraðra í Reykjavík þar sem fólki gefst kostur á að leiga íbúðir en búa jafnframt við öryggi sem ekki er til staðar á almennum leigumarkaði.
„Við leggjum þessa könnun fyrir okkar félagsmenn og þá sjáum við hvar skóinn kreppir, hvað þeir vilja og hvar þörfin er mest,“ segir Karl.