Foreldrasamstarf, Brekkuskóla, Akureyri hlýtur Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2024
Foreldraverðlaun Heimilis og skóla voru afhent í 29. sinn við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu, miðvikudaginn 29. Maí 2024.
Brekkuskóli á Akureyri og Öldutúnsskóli í Hafnarfirði hlutu verðlaunin að þessu sinni. Verkefnin stuðla að góðri og náinni samvinnu milli heimila og skóla, eru í takti við Farsældarsáttmála Heimilis og skóla ásamt því að ríma námkvæmlega við það sem Heimili og skóli standa fyrir. Verkefnin eiga það sameiginlegt að bjóða foreldrum til samstarfs.
Tekið var við tilnefningum frá almenningi en sérstök dómnefnd fór yfir allar tilnefningar líkt og venjan er og valdi verðlaunahafa. Ásmundur EInar Daðason mennta- og barnamála ráðherra ávarpaði samkomuna og afhenti verðlaunin að þessu sinni.
Heimili og skóli óska vinningshöfum og þeim sem tilnefnd voru hjartanlega til hamingju og þakka kærlega fyrir þeirra starf í þágu skólasamfélagsins. Mikilvægt er að vekja athygli á því sem vel er gert í skólasamfélaginu en markmið Foreldraverðlauna Heimilis og skóla er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fram fer innan leik-, grunn- og framhaldsskóla á Íslandi og þeim mörgu verkefnum sem stuðla að öflugu og jákvæðu samstarfi heimila, skóla og samfélagsins. Foreldraverðlaunin minna á hverju samtakamátturinn fær áorkað.
Úr tilkynningu frá samtökunum Heimili og skóli.