Fór að hekla á meðan hann var fótbrotinn
„Þetta var skemmtilegt verkefni og veitt mér mikla gleði,“ segir Kormákur Rögnvaldsson hársnyrtinemi sem dundaði sér við það að hekla heilmikið dúlluteppi, með 187 dúllum, 10X10 að stærð hver. Ástæða þess að hann hóf að hekla teppið var sú að hann fótbrotnaði og þegar fóturinn þarf hvíld er best að nýta hendurnar til að gera eitthvað uppbyggilegt á meðan brotið grær.
Kormákur kunni ekki að hekla áður en hann hófst handa við þetta stóra verkefni, „ég hafði farið í einhverja tíma í textíl í grunnskóla en náði ekki góðu sambandi við heklið þá, gat aldrei gert neitt annað en eina rönd og búið,“ segir hann.
Kormákur fótbrotnaði þegar hann var að leika sér á stigasleða með litla bróður sínum, hann datt af sleðanum, festi fótinn undir honum og kuðlaði hann einhvern veginn þannig að ökklinn brotnaði. „Þetta var ekki mjög slæmt brot í sjálfu sér en þó þannig að ég þurfti að hafa hægt um mig í 6 vikur. Þá voru auðvitað góð ráð dýr, hvað átti að gera við allann tíma sem skapaðist þegar ekki er hægt að vinna eða vera á ferðinni,“ segir hann.
Lærði á youtube
Hugmyndin að heklinu kviknaði fyrst þegar hann sá vesti sem vinur hans hafði heklað og fannst það mjög flott. Langaði jafnvel að feta í hans fótspor og búa sér til eitt stykki vesti á sig. Hann kannaðist við fólkið sem á verslunina Garn í gangi og hafði þegar farið þangað og fjárfest í garni fyrir hugsanlegt vesti. „Ég átti garnið þegar ég lenti í fótbrotinu og dró það fram, enda fínn tími til að einbeita sér að handavinnu þegar maður kemst hvorki lönd né strönd,“ segir hann en mynstrið fann hann á kennslumyndbandi á youtube. „Ég horfði og horfði þar til ég náði þessu.“
Ekki byrja á teppi
Þegar hefjast átti handa var byrjað á að afla upplýsinga og segir Kormákur að eitt af því sem brýnt er fyrir byrjendum að láta teppi eiga sig fyrsta kastið. Slík verkefni séu umfangsmikil og hætt við að hinir nýju heklarar gefist upp í miðju kafi. „Þetta varð auðvitað til þess að ég sá ekkert annað en að hekla teppi,“ segir Kormákur sem komst vel í gengum verkefnið þrátt fyrir að garnið sem hann notaði varð uppselt á Akureyri. Þá var garn keypt úr búð í Reykjavík og svo merkilega vildi til að það kláraðist einnig. Ekki stoppaði það verkefnið, garnið var pantað frá útlöndum og hægt að ljúka verkefninu.