Fólkið í bænum sem ég bý í
Árni Theodórsson og Birna Pétursdóttir hjá Flugu hugmyndahúsi opna sýninguna Fólkið í bænum sem ég bý í annað kvöld á Ráðhústorgi 7 klukkan 20:30, sýningin er hluti af dagskrá Akureyrarvöku.
Sjá einnig: Dagskrá Akureyrarvöku 2017
Um er að ræða óvenjulega og spennandi listasýningu sem samanstendur af átta listrænum ör-heimildamyndum. „Þetta er ör-heimildamyndasýning um átta ólíka einstaklinga á Akureyri sem allir eiga það sameiginlegt að vinna við eitthvað eða hafa áhuga á einhverju sem er kannski ekki öllum sýnilegt alla daga. Einfaldlega fólk sem er að gera áhugaverða hluti eða eiga áhugaverða sögu að baki sem ekki allir vita af,“ segir Árni Þór í samtali við Vikudag.
Einnig verða til sýnis átta portrett ljósmyndir af einstaklingunum eftir Daníel Starrason. Þá verður hægt að handleika muni og eina flík í eigu einstaklinganna. Áhugaverð sýning sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.