Fólki er nóg boðið!

Það logar allt í samfélaginu yfir sveltistefnu stjórnvalda í samgöngumálum

Reiði almennings er eðlileg þar sem gífurleg uppsöfnuð þörf er í viðhaldi vega og nýframkvæmdum og á það sama við um hafnir landsins og flugvelli. Álag á vegi landsins heldur áfram að aukast með gríðarlegri aukinni umferð og til landsins streyma ferðamenn sem aldrei fyrr. Áætlað er að á þessu ári komi 2,3 milljónir ferðamanna til landsins sem mun þýða enn frekara álag á vegakerfi landsins sem víða stenst ekki lágmarks öryggiskröfur og uppsöfnuð viðhaldsþörf orðin mikil. Og fólki er sannarlega nóg boðið yfir ástandinu.

Fjárveitingar og geðþóttaákvarðanir

Fyrir síðustu kosningar töluðu allir flokkar um að nú þyrfti virkilega að spýta í lófana og setja meiri fjármuni í fjársveltar samgöngur og innviði almennt. Samgönguáætlun til fjögurra ára var loks afgreidd eftir mikið þóf. Þar var horfst í augu við vandann og forgangsraðað í þágu þeirra landsvæða þar sem þörfin var brýnust.

Að kosningum loknum afgreiddi þingið fjárlög sem endurspegluðu ekki samgönguáætlun en niðurstaðan byggð­ist á því að ný ríkisstjórn myndi taka upp fjárlögin og fullfjármagna sam­þykkta samgönguáætlun. Það varð nú aldeilis ekki raunin heldur tók samgönguráðherra með ábyrgð ríkisstjórnarinnar sér það geðþóttavald að gjörbreyta þeirri forgangsröðun sem Al­þingi hafði samþykkt með samgöngu­áætlun sinni sem hefur að sjálfsögðu lögformlegt gildi. Það vantar 10 milljarða til að fjármagna samgönguáætlun og menn geta ekki boðið almenningi upp á þann málflutning að engir fjármunir séu til framkvæmda þegar upplögð tækifæri til að afla nægra fjármuna til framkvæmda blasa við.

Það þarf meiri stefnufestu, vilja og einurð til uppbyggingar en niðurskurðar

Ferðaþjónustan, sem er orðin stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar, þarf að leggja meira til sameiginglegra verkefna á borð við samgöngur, enda er uppbygging á þessu sviði beinlínis í þágu þessarar starfsgreinar. En stjórnvöld skortir vilja og einurð til að afla meiri tekna eins og hægt væri að gera t.d. með komugjöldum á flugfarseðla, álagi á veiðigjöld stórútgerðarinnar eða með auðlegðarskatti. Markaðir tekjustofnar til vegamála hafa ekki verið færðir upp til samtímaverðlags en ríkið hefur þess í stað aukið hlut sinn í hinu almenna bensíngjaldi sem rennur beint í ríkissjóð og er ekki skylt að verja til vegamála enda hefur því verið varið til ýmissa verkefna sem ekkert hafa með samgöngumál að gera.

Greiningardeild Arion banka metur uppsafnaða fjárfestingarþörf í vegkerfinu rúma 20 milljarða króna en á nýafstöðnu Iðnþingi var því haldið fram að um 65 milljarða kr. vanti til samgöngumála. Hvernig sem á þetta er litið fer ekki á milli mála að uppbygging og viðhald samgöngukerfisins hefur verið stórlega vanrækt og má ekki við svo búið standa. Vestfirðir finna mest fyrir niðurskurðarhnífnum á Vestfjarðarvegi og á Dynjandisheiði er skorið niður um 1,6 milljarð. Næstmest er skorið niður á sunnanverðum Austfjörðum, í Berufjarðarbotni og vegna brúar yfir Hornarfjarðarfljót. Fjölda annara framkvæmda mætti nefna eins og Skógarstrandarveg, Vatnsnesveg, vegi í uppsveitum Borgarfjarðar, Kjalarnesveg, Skagastrandarveg og Dettifossveg.

Áfram mætti telja í langan lista því viðhald vega hefur verið vanrækt lengi og hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu til samgöngumála dregst stöðugt saman; hefur farið úr 1,5 % niður í 1% sem er sögulegt lágmark.

Sveitastjórnir og íbúar hafa mótmælt harðlega niðurskurði til samgangna og undirskriftarsöfnun er í gangi þar sem skorað er á ríkisstjórn Íslands og Alþingi að standa við vegabætur á Vestfjarðarvegi 60 um Gufudalssveit þar sem byggð á sunnanverð­um Vestfjörðum á allt sitt undir því að þar byggist upp heilsársvegur. Sá dráttur sem hefur verið á samgöngubótum á því svæði er ekki boðlegur.

Það þýðir ekkert að flagga því framan í almenning að skoða eigi fjármögnun með auknum álögum á almenning í formi vegatolla eða selja ríkiseignir sem er einskiptisaðgerð og er eins og að pissa í skóinn sinn.

Nú er lag, notum það

Hvenær í ósköpunum höfum við efni á að taka til hendinni í fjársveltum samgöngum ef ekki nú þegar allar efnahagslegar aðstæður eru hagstæðar þannig að nú ætti að vera lag. Það verður enn dýrara að takast á við vandann ef honum er áfram ýtt á undan sér og varla gerist mikið ef efnahagsá­standið versnar.

Stjórnvöld verða að taka upp fjárlögin og koma til móts við háværar kröfur almennings um stóraukið fé til vegamála og gera þarf átak í samgöngubótum almennt bæði til hafnarframkvæmda og viðhalds flugvalla ef ekki á illa að fara því við erum komin yfir öll þolmörk og þolinmæði landsmanna á þrotum.

Höfundur er alþingismaður NV kjördæmis.

Nýjast