13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Fólk enn að átta sig á að allir geta leigt bílinn
„Deilibílnum á Akureyri hefur verið tekið mjög vel. Notkunin hefur verið ágæt, en fer svolítið eftir því hvernig færðin er,“ segir Gísli Þór Guðmundsson framkvæmdastjóri hjá Zipcar sem á og rekur deilibíl sem hefur verið í notkun á Akureyri frá því síðar hluta októbermánaðar. Deilibíllinn er staðsettur í miðbænum, á horni Skipagötu og Hofsbótar.
Gísli Þór segir að fólk sé þó enn að átta sig á að bílinn standi öllum til boða og að kynna sér hvernig þjónustan virkar. Fram til þessa hafa verið um það bil fjórar til fimm bókanir á bílinn í viku hverri og minnst að gera þegar færð er slæm. „Við höfum verið að fá nýja áskrifendur og þeir hafa nýtt sér bílinn, í þeim hópi eru m.a. námsmenn við Háskólann á Akureyri og eins líka bara almennir bæjarbúar á Akureyri á öllum aldri.“
Þurfa 2 til 3 bókanir á dag
Haldi notkun áfram að aukast segir Gísli Þór að félagið muni örugglega skoða það að bæta við bíl. „En við þurfum að taka stöðuna á því þegar líður á.“ Deilibílinn var tekin í notkun fyrir um það bil fjórum mánuðum og átti til að byrja með að vera tilraunaverkefni sem stæði yfir í hálft ár um það bil. „Við teljum líklegt að fólk muni nýta sér deilibíla meira í framtíðinni og jafnvel sumir í stað einkabíls. Við vonumst til að nýtingin á Akureyri aukist, því auðvitað eru fjórar til fimm bókanir í viku ekki mjög mikið,“ segir Gísli Þór. Tvær til þrjár bókanir þurfi á dag til að borgi sig að halda bílnum úti og hver leiga í að minnsta kosti klukkustund. „Við vitum að fólk er enn að átta sig á þessu og sumir kannski hálf hræddir við að prófa, en við höfum trú á að þetta komi allt saman.“
Hann segir að búist sé við að notkun aukist þegar líður að vori og eins þegar fleiri átti sig á að bílinn er fyrir hendi fyrir alla. Fyrirtækið rekur nokkra bíla í Reykjavík og þar er notkun meiri, einkum í kringum Landspítala og Háskólana.
Meðalferð kostar um 2000 krónur
Meðalferð á deilibílnum kostar um 2000 krónur, þ.e. hver klukkustund og segir hann að sumir leigi bílinn í sólarhring og fyrir það sé greitt um 16 þúsund krónur. „Það eru flestir að nýta bílinn í styttri ferðir, skjótast í búð eða jafnvel aðeins út úr bænum,“ segir hann en fyrirtækið býður áskrifendum sínum upp á nokkrar leiðir og velja menn sér það sem þeim hentar best.
Gísli Þór segir að félagið leggi áherslu á jákvæð áhrif á umhverfið og bendir á að meðlimir Zipcar nýti bílinn aðeins þegar þeir þurfa raunverulega á honum að halda. Þá bendir hann á að rannsóknir leiði í ljós að einkabílum fækki á bilinu 10 til 15 þar fyrir hvern Zipcar bíl sem í boði er, en það minnki umferð, fjölgi lausum bílastæðum og minnki kolvetnisútblástur svo eitthvað sé nefnt. „Þetta er hagstæð leið, ódýrara en að eiga bíl.“
/MÞÞ