Flugklasinn Air 66N Fjögur sveitarfélög á Norðurlandi láta af stuðning
Nokkur sveitarfélög á Norðurlandi sem stutt hafa við verkefni Flugklasans Air 66N hafa ákveðið að styrkja verkefnið ekki lengur. Það á við um Akureyrarbæ, Norðurþing, Skagafjörð og Fjallabyggð. Svör hafa ekki borist frá öllum sveitarfélögum á Norðurlandi sem fengu beiðni um áframhaldandi stuðning við verkefnið. Flugklasinn hefur verið í gangi frá árinu 2011.
Sveitarfélög á Norðurlandi hafa um árabil stutt við starf flugklasans með sérstökum fjárframlögum. „Breiður stuðningur og samstaða sveitarfélaga hefur reynst ómetanleg fyrir starf klasans og skapað þann árangur sem náðst hefur,“ segir í erindi sem barst sveitarfélögum um áframhaldandi stuðning til að byggja upp heilsárs áfangastað fyrir millilandaflug á Norðurlandi. Óskað var eftir framlagi frá sveitarfélögum öðrum en Akureyri, sem nemur 300 krónur á hvern íbúa til næstu þriggja ára, eða frá 2024 til 2026. Sótt var um stuðning til Akureyrarbæjar sem nemur 500 krónum á íbúa. Undanfarin ár hefur Akureyrarbær greitt fasta upphæð, 9 milljónir króna.
Fram kemur í fundargerð byggðaráðs Norðurþings að það hyggist ekki styrkja Flugklasann áfram þar sem um tímabundið átaksverkefni sé að ræða.
Bæjarráð Akureyrar ákvað á fundi í lok október í fyrra að gera sólarlagssamning við Flugklasann um árin 2022 og 2023. Fram kemur í bókun bæjarráðs að Akureyrarbær hefði verið dyggur stuðningsaðili Air 66N frá upphafi. Töluverður árangur hefði náðst í átakinu varðandi það að koma á beinu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll árið um kring og ljóst að áfram þurfi að sinna því verkefni Bæjarráð telji farsælla að sá stuðningur verði í gegnum sameiginlegan stuðning sveitarfélaga og fyrirtækja á svæðinu við Markaðsstofu Norðurlands.
Hilda Jana Gísladóttir S-lista segir í bókun miður að Akureyrarbær hætti stuðningi við Air 66N, bærinn ætti að leggja metnað sinn í að byggja ofan á þann árangur sem hefur náðst, „ekki síst þar sem enn eru mikil tækifæri til þess að byggja Norðurland upp sem heilsárs áfangastað fyrir millilandaflug.“
Í erindi Flugklasans er bent á það sem framundan er, m.a. að easyjet muni fljúga áætlunarflug til London frá Akureyri tvisvar í viku og hefst það nú í lok október og stendur til loka mars á næsta ári. Leiguflug Voigt Travel er á dagskrá á tímabilinu janúar til mars 2024, alls 12 flug og félagið verður einnig á ferðinni frá Hollandi næsta sumar. Leiguflug frá Sviss með Kontiki eru í boði frá febrúar til mars og þá mun Edelwiss bjóð upp á vikulegt áætlunarflug frá Sviss í júní og til loka ágúst næsta sumar.