Fjölmenn sendinefnd frá HA á Arctic Circle

Sjálfboðaliðar frá HA    Mynd Aðsend
Sjálfboðaliðar frá HA Mynd Aðsend

Þing Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle Assembly, var haldið í Hörpu dagana 19. til 21. október síðastliðinn með virkri þátttöku Háskólans á Akureyri eins og undanfarin ár. Um er að ræða stærsta alþjóðlega umræðuvettvang heims um Norðurslóðamál með þátttöku 2000 gesta frá um 60 löndum. Á þinginu voru um 200 málstofur með um 700 framsögur.

Arctic Circle er merkilegur vettvangur, ekki síst fyrir þær sakir að þar kemur saman ótrúlega fjölbreyttur hópur með ólíkan bakgrunn. Drifkrafturinn á bak við þennan viðburð er hr. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og heiðursdoktor við Háskólann á Akureyri.

Háskólinn á Akureyri er virkur þátttakandi í rannsóknum á Norðurslóðum og hefur tekið þátt í Arctic Circle frá upphafi, eða síðan árið 2013. Arctic Circle er því einstakt tækifæri fyrir háskólann og fræðafólk hans til að koma rannsóknum sínum á framfæri, hitta fræðafólk frá öðrum stofnunum og fá innsýn í það sem aðrir eru að vinna að.

„Aðalumræðuefnið í ár var að sjálfsögðu loftslagsbreytingarnar og von fólks að alþjóðaleiðtogar taki afgerandi ákvörðun til að stöðva þær breytingar á COP28-ráðstefnunni sem haldin verður í nóvember. Einnig var töluvert rætt um fjarveru Rússa og þá þörf að fá upplýsingar og rannsóknargögn frá rússnesku vísindafólki til að átta sig betur á stöðunni á Norðurslóðum í heild sinni. Þá var einnig lögð áhersla á að tengja á milli loftslagsbreytinga og loftslagsvár[SH1] [RH2] [SH3] ,“ segir Rúnar Gunnarsson, forstöðumaður Miðstöðvar alþjóðasamskipta.

Þátttaka HA á ráðstefnunni

Alþjóðastofnun HÍ stóð fyrir málstofunni Arctic Challenges: The Importance of Trans Arctic Collaboration í aðdraganda Arctic Circle og þar tók starfandi rektor, Elín Díanna Gunnarsdóttir, þátt. Háskólinn á Akureyri var að vanda með góða þátttöku á Arctic Circle í málstofum og viðburðum og má meðal annars nefna málstofu sem Eyjólfur Guðmundsson rektor stýrði og fjallaði um stefnu Íslands í Norðurslóðamálum frá árunum 2011 til 2021. Dr. Rasmus Bertelsen gegnir stöðu Nansen-prófessors fram að árslokum og hann tók þátt í fjölmörgum málstofum og viðburðum á þinginu. Sem dæmi má nefna voru málstofur um mikilvægi Nansen-stöðunnar en í þeirri málstofu var verkefnastjórinn Federica Scarpa einnig með erindi. Jafnframt voru þar fyrrum Nansen-prófessorarnir Dr. Astrid Ogilvie og Dr. Jessica Shadian.

Fulltrúar frá Lagadeild Háskólans á Akureyri, þau Rachael Lorna Johnstone og Romain Chuffart, voru með erindi í málstofum í tengslum við Heimskautarétt (Polar law). Í þeim málstofum voru einnig stúdentar HA úr Heimskautarétti, þær Kanagavalli Suryanaraayanan og Helga Númadóttir. Frá Félagsvísindadeild var Joan Nymand Larsen með erindi í tengslum við stórt verkefni um kynjamál á Norðurslóðum (Gender in the Arctic). Einnig voru sérfræðingar frá RMF, þær Ásta Marta Steinsdóttir og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, með málstofu um siglingar skemmtiferðaskipa á Norðurslóðum og áhrif þeirra. Rúnar stóð svo vaktina á kynningarbás HA ásamt Hildi Sólveigu Elvarsdóttur, verkefnastjóra á Hug- og félagsvísindasviði.

Rúnar segir að erfitt sé að benda á eitthvað eitt sem hafi staðið upp úr á Arctic Circle í ár, enda af mörgu að taka. Hann segir þó áhugavert og ánægjulegt að stjórnmálamenn séu farnir að taka ákveðnar til máls þegar kemur að því að lýsa stöðunni, sem gefi til kynna að þeir átti sig á þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin. Þá eru honum til dæmis minnistæð orð forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur: „We no longer find ourselves in an era of global warming but of global boiling.“

„Okkar fólk stóð sig frábærlega á Arctic Circle. Ég var að taka þátt í níunda skipti og það er alltaf jafn ánægjulegt og gaman að sjá og hitta fyrrum stúdenta úr Polar Law sem í dag sinna störfum vítt og breitt á sviði Norðurslóða,“ segir Rúnar.

Líf og fjör hjá stúdentum og starfsfólki

 50 stúdentar frá Háskólanum á Akureyri fóru sem sjálfboðaliðar og þátttakendur á Arctic Circle. Þessi hópur samanstóð af stúdentum úr heimskautarétti auk stúdenta frá Háskólanum í Tromsø, en aðrir eru skiptinemar sem dvelja við HA þetta misserið.

„Framundan er svo námsferð stúdenta úr Heimskautarétti og stúdenta frá Tromsø, sem leidd er af Rasmusi Bertelsen, Nansen-prófessor HA, ásamt verkefnastjóranum Federicu Scarpa. Stúdentar munu leggja upp í ferð um Norðausturland til að kynna sér meðal annars öryggismál á Norðurslóðum. Farið verður í heimsókn á rannsóknarstöðina Kárhól, ratsjárstöð NATO og Rif rannsóknarstöðina á Melrakkasléttu auk fleiri staða. Að því loknu mun hópurinn sigla með Norrænu sem leið liggur til Færeyja þar sem hann mun taka þátt í Polar Law Symposium ráðstefnunni og auk hópsins munu sérfræðingar okkar um málefnið, þau Rachael Lorna Johnstone og Romain Chuffart, taka þátt. Þetta er metnaðarfull ferð og ekki ólíklegt að hópurinn fái smá kennslustund í veðurfari á norðlægum slóðum,“ segir Rúnar að lokum.


 

 

Nýjast