Fjöldi umsókna um jólaaðstoð hjá Velferðarsjóði
„Það er svipaður fjöldi sem sækir um núna og í fyrra, en líkast til heldur fleiri,“ segir Herdís Helgadóttir formaður Velferðarsjóðs Eyjafjarðar en þar er úrvinnsla umsókna um jólaaðstoð í fullum gangi.
Herdís segir greinilegt að svigrúm hjá fólki sé minna en áður og lítið þurfi út af bregða til að heimilisbókhaldið fari í mínus. Stækkandi hópur fólks hafi því neyðst til að leita aðstoðar Velferðarsjóðsins „Það er ljóst að þörfin núna er mjög mikil.“
Mikilvægt að söfnun takist vel
Sjóðurinn treystir á framlög frá fyrirtækjum og félagasamtökum á svæðinu. Herdís segir velviljann í samfélaginu ómetanlegan og að yfirleitt hafi gengið vel að safna fyrir jólin. Hún bendir þó á að nú hafi allt hækkað og fólk fái minna fyrir peninginn. Því sé afar mikilvægt að nú safnist meira en áður.
„Það hefur gengið nokkuð vel að safna í sjóðinn en við bindum vonir við að næstu vikur verði góðar. Við þurfum nefnilega ekki bara að safna fyrir jólaaðstoðinni, heldur hefur eftirspurn eftir aðstoð alla aðra mánuði stóraukist á milli ára. Þar sem desember er okkar aðal fjáröflunartími þá treystum við á að það gangi vel svo við getum sinnt þessari neyðaraðstoð allt næsta ár, því fátækt er til staðar allan ársins hring.“