Fjölbreytni í fyrirrúmi hjá Listasafninu á Akureyri 2024
Nýtt starfsár Listasafnsins á Akureyri hófst formlega síðastliðinn laugardag þegar opnaðar voru sýningar þeirra Alexanders Steig, Steinvölur Eyjafjarðar, Guðnýjar Kristmannsdóttur, Kveikja, og Sigurðar Atla Sigurðssonar, Sena. Alls verða sýningarnar 22 á árinu og á meðal annarra listamanna eru Salóme Hollanders, Heiðdís Hólm, Jónas Viðar, Gunnar Kr. Jónasson, Detel Aurand, Claudia Hausfeld, Fríða Karlsdóttir, Oliver van den Berg, Georg Óskar, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Einar Falur Ingólfsson. Á kynningarfundi sem haldinn var á dögunum var dagskrá ársins 2024, ný árbók og komandi starfsár kynnt. Árbókin er nú öllum aðgengileg og gjaldfrjáls í anddyri safnsins auk valdra staða á Akureyri og á heimasíðu þess, listak.is. Á fundinum var einnig tilkynnt um styrki frá Safnaráði og Listaverkasafni Valtýs Péturssonar.
Þrjár ólíkar listahátíðir haldnar á árinu
„Við erum stolt að segja frá því að Listasafnið tekur þátt í þremur ólíkum listahátíðum á komandi starfsári,“ segir Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri. „Sem fyrr verður A! Gjörningahátíð á sínum stað í október og nú í tíunda sinn. Hátíðin er sú eina sinnar tegundar á landinu þar sem hún einbeitir sér eingöngu að gjörningalist og breytir Akureyri í suðupott spennandi gjörninga ár hvert. Boreal Screendance Festival er önnur hátíð sem Listasafnið kemur að, en listrænn stjórnandi hennar er Yuliana Palacios. Um er að ræða tíu daga alþjóðlega dansvídeóhátíð sem haldin verður í Listagilinu í byrjun nóvember. Á Boreal eru sýnd metnaðarfull dansvídeó alls staðar að úr heiminum, en hátíðin stendur einnig fyrir fjölbreyttum danstengdum viðburðum og samkomum á sýningartímanum. Þriðja hátíðin er Northern Lights Fantastic Film Festival, sem er þematengd kvikmyndahátíð sem mun sýna hátt í 40 alþjóðlegar stuttmyndir á Akureyri í nóvember. Fantastic er notað yfir ákveðna tegund kvikmynda sem unnar eru í töfraraunsæi og þess sem er á mörkum hins raunverulega. Skipuleggjendur þeirrar hátíðar eru Ársæll Sigurlaugar Níelsson, Brynja Baldursdóttir og Marzibil Snæfríðar Sæmundardóttir,“ segir Hlynur.
Styrkir frá Safnaráði og Listaverkasafni Valtýs Péturssonar
Á kynningarfundinum kom jafnframt fram að Listasafnið hlaut styrk frá Safnasjóði að upphæð 4.400.000 fyrir A! Gjörningahátíð, sýninguna Er þetta norður? og skapandi fjölskylduleikinn Vangaveltur um myndlist, en auk þess úr Listaverkasafni Valtýs Péturssonar að upphæð 1.500.000. „Það er alltaf mikill heiður að fá styrki fyrir starfsemi Listasafnsins,“ segir Hlynur. „Styrkurinn úr Listaverkasafni Valtýs Péturssonar er sérstaklega ánægjulegur að því leyti að honum skal varið í kaup á listaverkum eftir ungt myndlistarfólk, sem er mikið fagnaðarefni.“
Fastir liðir
Þriðjudagsfyrirlestrar Listasafnsins hefja göngu sína að nýju 6. febrúar næstkomandi þegar Ýr Jóhannsdóttir heldur fyrsta fyrirlestur ársins. Um er að ræða samstarfsverkefni Listasafnsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Gilfélagsins. Fyrirlestrarnir eru sem fyrr haldnir á þriðjudögum kl. 17-17.40 yfir vetrartímann. Að venju verður fræðslustarf Listasafnsins kraftmikið og í gangi allt árið þar sem m.a. verður boðið upp á almenna leiðsögn, fjölskylduleiðsögn, kvöldleiðsögn, smiðjur og vinnustofur.